Stefnir á að skuldahlutfallið lækki á næsta ári

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælti fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælti fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs í morgun. Skjáskot/Alþingi

Mikilvægi þess að ná tökum á verðbólgunni, lækkun skuldahlutfalls og uppbygging á styrk ríkissjóðs, komu meðal annars við sögu þegar að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir frumvarpi til fjárlaga 2023 á Alþingi í morgun.

Bjarni var bjartsýnn í byrjun ræðu og minntist þá m.a. á að staðan í efnahagsmálum væri mun betri en gert hafði verið ráð fyrir í miðjum heimsfaraldri. Búist væri við miklum hagvexti í ár, einkaneysla væri sterk og að mun fleiri ferðamenn hefðu komið til landsins en gert hafði verið ráð fyrir. Þá hefði kaupmáttur aldrei verið meiri.

„Er það skýrt markmið fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar að stuðla að stöðugleika og sjálfbærni með því að draga jafnt og þétt úr hallanum, stöðva hækkun skulda og að það verði orðið að veruleika eigi síðar en á tíma fjármálaáætlunarinnar. Það er áætlað að skuldirnar verði um 1.210 milljarðar eða 33,4% í lok yfirstandandi árs. Ég verð að segja að það er langt umfram væntingar, sérstaklega þegar að við vorum að horfa fram í tíman í miðjum heimsfaraldri. 

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að skuldir hækki að nafnvirði um 65 milljarða á næsta ári og verði  1.275 milljarðar en lækki sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Gangi það eftir mun skuldahlutfall á næsta ári lækka í fyrsta sinn frá upphafi faraldursins og verða 33% í lok næsta árs. Það væri verulega mikilvægur áfangi á okkar skýru vegferð,“ sagði Bjarni.

Styrkja innviðina 

Þrátt fyrir aukið aðhald í frumvarpinu sagði fjármálaráðherra að áfram væri stefnt að því að styrkja innviðina. 

Sagði hann áhersluna nú vera að styrkja þá sem minnst hafa og hafði hann sérstakar áhyggjur af þeim sem ekki hefði tekist að komast inn á fasteignamarkaðinn. Aðgerðir væru þó í vændum til að styðja við þessa hópa, m.a. væri verið að hækka bætur í almannatryggingakerfinu. 

„Við viljum viðhalda sterkri opinberri grunnþjónustu og því er fylgt eftir af fullum krafti. Sömuleiðis á að viðhalda raunvirði bóta almannatrygginga,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert