Stefnum í sama ástand og Noregur

Steinunn Þórðardótt­ir, formaður Læknafélags Íslands, kveður þess skammt að bíða …
Steinunn Þórðardótt­ir, formaður Læknafélags Íslands, kveður þess skammt að bíða að sama ófremdarástand í heimilislæknamálum bíði Íslendinga og Norðmanna en fjallað var um innflutning danskra lækna til Noregs hér á mbl.is í gær. mbl.is/Hari

„Þetta eru sláandi upplýsingar um ástandið í Noregi og maður spyr sig auðvitað hvert þeir séu komnir að þurfa að borga leigulæknum allt að þrjár milljónir á mánuði og frítt húsnæði eingöngu fyrir dagvinnu,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, um frétt mbl.is af heimilislæknaskorti í Noregi sem nú knýr norsk sveitarfélög til þeirra örþrifaráða að flytja inn danska lækna gegnum starfsmannaleigur svo íbúarnir hafi aðgang að lækni.

„Það er magnað að Norðmenn séu komnir á þennan stað,“ heldur Steinunn áfram, „og ég velti því fyrir mér hvort við ætlum ekki að grípa inn í áður en við endum þarna líka,“ segir formaðurinn og bendir á að ástandið sé ískyggilegt víða á íslenskri landsbyggð þegar aðgengi að heimilislæknum er annars vegar.

„Við þurfum að borga okkar fastráðna fólki betur og búa betur að því. Við erum ekki komin alveg þangað sem Norðmenn eru komnir þótt við séum með færri lækna per höfðatölu en Norðmenn. Maður skyldi ætla að við værum í raun í verri málum út frá því, en þegar maður horfir á héruðin á Íslandi eru þau mörg hver mönnuð af læknum sem eru á vakt allan sólarhringinn og að nálgast eftirlaun,“ segir Steinunn.

Vörn frekar en sókn í fjárlögum

Hún bendir á að sum héruð á Íslandi séu nú eingöngu mönnuð verktakalæknum sem sé langt í frá ákjósanlegt ástand, það er læknum sem eru verktakar hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun. „Norðmenn tala um að á fjárhagsáætlun næsta árs sé gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til þessa málaflokks en hér sjáum við engin merki um slíkt, við erum nýbúin að fá ný fjárlög sem bera meiri vott um vörn en sókn þegar kemur að heilbrigðismálum,“ heldur hún áfram.

Steinunn segir ekkert í fjárlagafrumvarpinu benda til þess að til standi að bæta kjör lækna úti á landi, reyna að laða fólk í slík störf og til að fastráða sig. Ísland stefni því hraðbyri á sama stað og Noregur sé nú þegar kominn á og því tímabært að leggja fram varnaðarorð í stað þess að fljóta sofandi að feigðarósi.

En hvaða leiðir sér Steinunn færar til úrbóta á þessum vettvangi?

„Við höfum verið að benda á ýmsar leiðir nú þegar í óefni er komið, til dæmis að efla sérnám í héraðslækningum, sem er ekki einu sinni í boði í dag, og vekja lækna til vitundar um þennan valkost,“ svarar formaðurinn og bendir á annan möguleika sem sé að greiða leið fólks, sem alið er upp úti á landi, í læknanám. „Við sjáum að fólk sem er alið upp utan höfuðborgarsvæðisins er líklegra til að vilja flytja þangað eftir nám og starfa þar,“ segir Steinunn.

Þurfum einfaldlega fjárhagslega hvata

Engir slíkir hvatar séu til staðar í dag sem þó væri sáraeinfalt að búa til að mati Steinunnar, svo sem að koma upp stúdentaplássum í læknadeildinni sem væru sérstaklega eyrnamerkt nemendum utan af landi auk þess að bjóða upp á ívilnanir þeim læknum til handa sem tilbúnir eru að taka að sér stöðu í héraði til ákveðins tíma, svo sem niðurfellingu námslána að hluta.

„Krísan í dag er bara orðin þannig að nú er tímabært að auka fjárhagslega hvata, að minnsta kosti tímabundið, til að fá fólk til þessara starfa í þeirri von að styrking til framtíðar muni kannski skila betri mönnun líka. Við þurfum einfaldlega fjárhagslega hvata til að fá fólk út á land,“ segir formaðurinn umbúðalaust.

Nú er kandídatsárið svokallaða sem var og hét aflagt, þegar nýútskrifuðum læknum var gert að sinna héraðsskyldu úti á landi, og kemur reyndar hér upp í viðtalinu að Steinunn og blaðamaður eru bæði læknabörn og gegndu feðurnir sinni héraðsskyldu á Húsavík og Hvammstanga – fyrir margt löngu.

Erlendir læknar vel inni í myndinni

„Við erum auðvitað ekki fylgjandi því að fólk sé skikkað í hérað en það er hægt að gera þetta meira aðlaðandi, ég var búin að nefna fjárhagslega hvata en aðbúnaður skiptir einnig máli, að læknir eða læknar starfi með öflugu teymi annarra menntaðra fagstétta,“ segir Steinunn og tekur sérstaklega fram að það sem þyngst vegi þó sé vitundarvakning, að læknar fái það á tilfinninguna að málið verði sett í forgang og unnið að því að leysa það. Yfirvofandi læknisleysi eftir tvö til þrjú ár sé veruleiki sem sum héruð á landsbyggðinni megi búa við.

Hátt í 50 þúsund landsmenn eru án fasts heimilislæknis og …
Hátt í 50 þúsund landsmenn eru án fasts heimilislæknis og er það svipaður fjöldi og heimsækir síðdegisvakt heilsugæslunnar árlega. Morgunblaðið/Eggert

Telur Steinunn þá að við Íslendingum gæti hugsanlega blasað sá veruleiki sem Norðmenn sjá nú, að fluttir verði inn erlendir læknar til að bæta úr vaxandi neyð?

„Ég get alveg séð það fyrir mér já,“ svarar hún, embætti landlæknis annist mat á hæfi erlendra lækna sem vilja koma til starfa á Íslandi og hvort þeir uppfylli kröfur til að hljóta lækningaleyfi á Íslandi sem sé misjafnt eftir upprunalandi.

„En nú erum við að horfa á að Norðmenn eru að bjóða dönskum læknum þessi kjör [allt að 2,8 milljónir íslenskra króna á mánuði], hvað þyrftum við að bjóða fólki til að koma hingað?“ spyr Steinunn og segir svo aðspurð að erlendum læknum við störf hér fari fjölgandi og liggi mismunandi hvatar að baki strandhöggi þeirra.

„Til dæmis voru læknar af ýmsum þjóðernum að vinna á bráðamóttökunni í sumar og ég held að það hafi bara verið dálítil ævintýramennska, til dæmis áhugi á landinu,“ heldur formaðurinn áfram og segir svo sögu af annarri heimsókn frá útlöndum.

„Á Landspítalanum eru bara tveir starfandi hjartaskurðlæknar sem eru á vakt allan sólarhringinn. Þeir þurftu að komast í sumarfrí og þá var eina leiðin bara að fá gamla félaga úr sérnáminu í Svíþjóð til að leysa þá af, svo þetta er alla vega.“

Skila sér ekki heim eftir sérnám

Er aðsókn í læknanám á Íslandi nægileg til að standa undir endurnýjun í stéttinni?

„Við erum náttúrulega með þennan clausus [fjöldatakmörkun við inngöngu í námið], þar eru teknir inn 60 og töluvert fleiri hafa reynt við prófin svo aðsókn að náminu er mikil, sem er jákvætt, en við vorum að reikna það út hjá Læknafélaginu að til þess að halda í við öldrun þjóðarinnar og ýmsar fleiri breytur þurfi að fjölga útskrifuðum læknum. Við komum niður á að það þyrfti að fjölga þeim sem eru teknir inn úr 60 í 90 þar sem við glímum nú þegar við læknaskort,“ segir Steinunn.

Tveir hjartaskurðlæknar við Landspítalann, sem eru á vakt allan sólarhringinn, …
Tveir hjartaskurðlæknar við Landspítalann, sem eru á vakt allan sólarhringinn, báðu gamla félaga úr sérnámi í Svíþjóð að skjótast til Íslands og leysa þá af í sumarfrí. mbl.is/Jón Pétur

Í framhaldi af þessum vangaveltum bendir hún enn fremur á að yfir 600 íslenskir læknar séu við störf erlendis. Af þeim virðist ríflega helmingur hafa lokið sérnámi en ekki skila sér heim þrátt fyrir það.

„Þarna má líka spyrja hvernig við getum laðað þetta fólk til starfa í kerfinu okkar og spyrja það hvað það sé sem geri það að verkum að það geti ekki hugsað sér að flytja heim. Við eigum þennan mannauð sem er fullnuma en hefur af einhverjum ástæðum ekki áhuga á að flytja heim og auðvitað eru margar ástæður á bak við það – hér eru auðvitað aðstæður sem í sumum tilvikum fæla fólk frá,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert