„Alls ekki algengt að þetta gerist“

Flugvél frá Icelandair þurfti að hætta við lendingu þegar í …
Flugvél frá Icelandair þurfti að hætta við lendingu þegar í ljós kom að önnur flugvél var á brautinni. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er alls ekki algengt að þetta gerist. Við höfum rannsakað alvarleg flugatvik oft áður, en ég er ekki með á reiðum höndum hve oft nefndin hefur rannsakað sams konar atvik,“ segir Ragnar Guðmundsson, rannsakandi hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, í samtali við mbl.is

Til umræðu er flugatvik sem varð á Keflavíkurflugvelli þann 31. ágúst þegar farþegaþota Icelandair, sem var að koma frá München í Þýskalandi, hætti við lendingu þegar í ljós kom að önnur flugvél var á flugbrautinni.

Vélin tók þá aukahring og lenti skömmu síðar. Víkurfréttir greindi fyrst frá málinu.

Skilgreint sem alvarlegt flugatvik

Ragnar segir að rannsóknarnefndin skilgreini atvikið sem alvarlegt flugatvik og að talsvert sé um rannsóknir á þeim á hverju ári, þó að svona atvik séu óalgeng.

Alvarlegt flugatvik er flugatvik sem verður við aðstæður sem benda til að legið hafi við slysi samkvæmt skilgreiningu reglugerðar innanríkisráðuneytisins.

Spurður hvort um skipulagsvandamál hafi verið að ræða segist Ragnar ekki geta svarað því að svo stöddu, en staðfestir að rannsókn sé hafin og að nefndin sé að taka viðtöl við flugmenn umræddra véla sem og starfsfólk flugvallarins. Ragnar kveðst ekki geta sagt til um hvenær skýrslu vegna málsins verði skilað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert