Vilja ekki veita upplýsingar um starfsmanninn

Litlar upplýsingar var að fá hjá Barna- og fjölskyldustofu um …
Litlar upplýsingar var að fá hjá Barna- og fjölskyldustofu um starfsmanninn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Barna- og fjölskyldustofa ætlar ekki að veita upplýsingar um hvaða meðferðarheimili starfsmanni, sem sakaður var um að hafa kynferðislega áreitt vistbarn á Laugalandi, hafi verið falið að veita forstöðu.

Þá kveðst stofnunin heldur ekki geta svarað því hversu lengi starfsmaðurinn hafi starfað á Laugalandi eða hvort hann hafi starfað á öðrum meðferðarheimilum.

Þetta kemur fram í skriflegum svörum Barna- og fjölskyldustofu við fyrirspurnum mbl.is.

Þar kemur þó fram að starfsmaðurinn sem um ræðir starfi ekki á meðferðarheimili á vegum Barna- og fjölskyldustofu í dag og að stofnunin hafi ekki upplýsingar um frekari tilkynningar um hegðun starfsmannsins.

Andlegt og líkamlegt ofbeldi

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála ríkisins gaf nýlega út svarta skýrslu um meðferðar­heim­ilið í Varp­holti og á Laugalandi árin 1997-2007. Skýrslan byggði á könnun þar sem tekin voru viðtöl við 54 einstaklinga. Var markmið könnunarinnar að at­huga hvort og þá í hvaða mæli börn, sem vistuð voru á meðferðar­heim­il­inu, hafi sætt illri meðferð, and­legu eða lík­am­legu of­beldi á meðan dvöl þeirra stóð. 

Í skýrslunni lýstu viðmælendur bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Sakar starfsmann um kynferðislega áreitni

Í ítarefni sem gefið var út samhliða skýrslunni kemur fram að ein af stúlkunum sem vistuð var á Laugalandi hafi greint frá því að starfsmaður heimilisins hefði nuddað á henni eggjastokkana.

Þar segir einnig að starfsmenn hafi heyrt um atvikið og kveðst einn þeirra hafa tilkynnt það til Barnaverndarstofu og í framhaldi af því hafi sá sem var sakaður um kynferðislegu áreitnina hætt störfum.

Skömmu síðar var starfsmanninum, sem sakaður var um kynferðislegu áreitnina, þó falið að veita öðru langtímameðferðarheimili forstöðu, sem rekið var á grundvelli þjónustusamnings við Barnaverndarstofu, sem nú nefnist Barna- og fjölskyldustofa.

Segjast ekki geta veitt upplýsingar

Í svari stofnunarinnar segir að ekki sé hægt að veita upplýsingar um hvaða meðferðarheimili viðkomandi starfsmaður tók við eða hversu lengi hann hafi unnið á meðferðarheimilinu að Laugalandi.

Þá var heldur ekki hægt að segja til um hversu lengi hann starfaði á meðferðarheimilum almennt, hvort hann hafi gegnt forstöðu á fleiri heimilum eða hvaða stöðu starfsmaðurinn gegndi á meðferðarheimilinu að Varpholti/Laugalandi.

Í svörum Barna- og fjölskyldustofu er fullyrt að þessar upplýsingar sem mbl.is falaðist eftir séu þess eðlis að mögulega væri unnt að auðkenna viðkomandi einstakling, í ljósi þess takmarkaða fjölda starfsmanna sem störfuðu á meðferðarheimilinu og í ljósi takmarkaðs fjölda meðferðarheimila. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert