Ekki búin að ákveða hvort hún gefi kost á sér

Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður verkalýðsfélagsins Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður verkalýðsfélagsins Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur ekki ákveðið hvort hún muni gefa kost á sér í embætti annars varaforseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Kosið verður í forystu sambandsins á þingi þess sem fer fram dagana 10. til 12. október.

Líkt og mbl.is hefur greint frá vill Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR, að Sól­veig Anna verði ann­ar vara­for­seti ASÍ. Ragnar er sjálfur í framboði til forseta ASÍ.

Mun hvetja Eflingarfélaga til að kjósa Ragnar

„Ég þakka Ragnari Þór kærlega fyrir traustið. Ég gleðst yfir því að hann hafi gefið kost á sér og mun styðja hann og hvetja Eflingarfélaga til að gera slíkt hið sama,“ segir Sólveig Anna í samtali við mbl.is.

„Ég hef enn ekki ákveðið hvað ég ætla að gera,“ bætir hún við.

Þú er þá mögulega að íhuga framboð?

„Þetta er svarið. Ég hef ekki ákveðið hvað ég ætla að gera,“ segir Sólveig Anna.

Tveir boðið sig fram í varaforseta

Enn sem komið er hefur enginn boðið sig fram í embætti annars varaforseta ASÍ, en varaforsetarnir eru þrír talsins.

Vilhjálmur Birg­is­son, formaður Verka­lýðsfé­lags Akra­ness og Starfs­greina­sam­bands­ins, sækist eftir því að verða þriðji varaforseti ASÍ.

Þá sækist Kristján Þórður Snæ­bjarn­ar­son, formaður Rafiðnaðarsam­bands Íslands, eftir því að verða fyrsti varaforseti ASÍ. Ásamt því að vera formaður Rafiðnaðarsambands hefur Kristján Þórður gegnt embætti forseta ASÍ síðan að Drífa Snædal sagði af sér embættinu þann 10. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert