Neyddust til að lenda vegna flugdólgs

Flugvélin var á leiðinni til Baltimore í Bandaríkjunum.
Flugvélin var á leiðinni til Baltimore í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Aðsend

Flugvél Play neyddist til þess að lenda í Kanada á leið sinni til Baltimore í Bandaríkjunum til þess að fjarlægja flugdólg. Þetta staðfestir Nadine Guðrún Yaghi, upplýsingafulltrúi Play í samtali við mbl.is. Rúv greindi fyrst frá.

Þetta er í fyrsta sinn sem Play neyðist til að lenda vegna farþega sem lætur ófriðlega.

Verður ákærður vegna háttseminnar

Samkvæmt tilkynningu á vef kanadísku lögreglunnar verður maðurinn, sem er 33 ára Bandaríkjamaður, ákærður fyrir líkamsárás og fyrir að valda lendingu.

„Farþeginn byrjar á því að láta ófriðlega mikil læti og fer svo að sýna ógnandi tilburði. Flugliðar eru að fylgja öllum verkferlum, en þegar ástandið er orðið þannig að það er ekki hægt að halda áfram flugi er ákveðið að lenda í Kanada,“ segir Nadine.

Að hennar sögn voru einhverjir farþegar sem sátu nálægt manninum færðir en enginn særðist um borð. Nadine segir þetta í raun hafa farið eins vel og það gat farið miðað við aðstæður.

Spurð hvort þetta sé í fyrsta sinn sem Play neyðist til þess að lenda vegna óstýriláts farþega svara Nadine því játandi. „Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það kemur eitthvað upp um borð en þetta er í fyrsta sinn sem við erum að lenda einhvers staðar vegna þess.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert