Veit hvernig það er að ströggla

Lára Ómarsdóttir.
Lára Ómarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Lára Ómarsdóttir, samskiptastjóri og fyrrverandi fréttakona, sagði í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun að hún hefði kosið að viðmið hátekjuskatts hefðu verið lækkuð eða skattar hátekjufólks hækkaðir, þegar hún var spurð út í fjárlagafrumvarpið.

„Ég var á leigumarkaði í 20 ár, bjó við mikla fátækt og bara leið ömurlega og ég veit hvernig það er að vera að ströggla ung, eiga ekki fyrir mat handa börnunum sínum. Þannig að ég hefði kannski viljað sjá eitthvað meira fyrir þann hóp. Kannski koma þau með einhver tromp uppi í erminni sem við erum ekki alveg búin að sjá útfærsluna á,“ sagði hún í útvarpsþættinum.

Hún sagði að hagur ríkissjóðs fari batnandi og að fleira jákvætt sé að finna í frumvarpinu. Neytendamálin hafi hún aftur á móti hnotið um.

Hún sagði það kannski vera réttu leiðina til að auka tekjur ríkissjóðs að hækka neysluskatta, eins og komi fram í frumvarpinu, en það komi verst við þá sem minnst eiga og hafa lægstar tekjur. Þar á meðal öryrkja, aldraða, fólk á félagsbótum, fólk á leigumarkaði, barnafjölskyldur og ungt fólk.

Lára nefndi að búið væri að boða breytingar á húsnæðisbótakerfinu, hækka eigi bætur til öryrkja og breyta lögum um fyrstu kaup. Það verði kannski ákveðið mótvægi. „Það vantar kannski í frumvarpið þessar mótvægisaðgerðir sem þau boða fyrir verst settu hópana.“

mbl.is