Prjóna fyrir kalda fætur í Úkraínu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Hákon Pálsson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra mælir með því af öllu hjarta að þeir sem geti prjónað ullarsokka úr alvöru íslenskri hlýrri ull fari inn á vefinn Sendum hlýju.

„Við sjáum til þess að hlýjan skili sér á kalda fætur í erfiðum verkefnum,“ skrifar Þórdís í færslu á Facebook-síðu sinni.

Á vefsíðunni geta sjálfboðaliðar tekið þátt í að prjóna fyrir fólk í Úkraínu, einkum hermenn, skráð þar fjölda og stærð sokkapara sem þeir ætla að prjóna og fengið prjónauppskriftir. Á síðunni er einnig að finna upplýsingar um móttökustaði.

100.000 sokkapör

Þórdís segist hafa rætt framtakið við varnarmálaráðherra Úkraínu, Oleksii Reznikov, sem sé ákaflega þakklátur fyrir að hugsað sé með hlýhug til Úkraínu á Íslandi.

„Það skiptir okkur öll máli að Úkraína hafi sigur gegn hinni grimmilegu árás sem rússnesk stjórnvöld standa fyrir. Það er þakkarvert að vita að við Íslendingar getum lagt eitthvað af mörkum,“ skrifar Þórdís.

Segir í tilkynningu að lagt sé upp með að senda 100.000 pör út til Úkraínu í lok október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert