Að sigla inn í tíma sem ekki er ráðið við

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„[Við] þurfum að spyrja okkur krefjandi spurninga um einmitt vegna hvers kemur fólk í svona miklum mæli til Íslands umfram þau lönd sem við berum okkur saman við og störfum með.“ Þetta sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þar svaraði hann spurningum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, um málefni flóttafólks.

Sagðist Jón taka undir orð Sigmundar og ríkislögreglustjóra um að ástandið um þessar mundir væri mjög erfitt þegar kæmi að innflytjendamálum og flóttafólki. Sagði hann rétt að hafa í huga að álagið núna hafi að miklu leyti myndast vegna fólks sem kemur frá Úkraínu og sagði Jón alla sammála um að vilja greiða þessu fólki leið eins og mögulegt væri.

Reglur hér á landi rýmri en víða

Hann sagði aftur á móti að mjög fjölmennur hópur kæmi frá Venesúela, eða um 20% umsækjenda.

„Þar skerum við okkur úr frá öðrum Evrópulöndum, að Spáni undanskildum,“ sagði Jón á þinginu. Hann bætti við að hingað til lands gætu á þessu ári komið allt að 4.500 manns og að krefjandi væri að leysa það, sérstaklega þegar komi að húsnæðisvandanum, sem þegar sé til staðar, og félagslegum vanda.

Til að svara spurningunni sem Jón sagði þjóðfélagið þurfa að spyrja sig að og komið er inn á hér að ofan sagði hann:

„Svarið liggur að einhverju leyti í því að það þykir vænlegt að koma hingað vegna þess að þær reglur sem hér gilda eru rýmri og hér eru kannski betri aðstæður að mörgu leyti sem fólk á flótta hefur fengið.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sagði Jón að standa þyrfti vörð um verndarkerfið og að grundvallaratriði væri að fólk misnotaði það ekki. Þá sagði hann að núverandi lög frá 2016 gæfu stjórnvöldum mjög fá verkfæri til að takmarka komu fólks til landsins.

Sagði hann að frumvarp, sem hann ætlaði að leggja fram í vetur, myndi leysa úr ákveðnum hnútum, verði það samþykkt. Meirihluti hefði verið á þinginu um að ganga ekki lengra við að samræma reglur hér á landi við það sem þekkist á Norðurlöndum og þar með komi fleiri flóttamenn hingað til lands.

„Félagslega kerfið er sprungið

„Hvernig ætlum við að veita félagslega þjónustu þegar ekki bara félagslega kerfið er sprungið, heldur finnur skólakerfið, leikskólakerfið og heilbrigðisþjónustan fyrir þessu?“ spurði Jón og bætti við:

„Við erum sem samfélag að mínu mati að sigla inn í tíma þar sem við ráðum ekki við að veita þá þjónustu sem við eigum að veita og viljum veita.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert