Fannst fjórum árum eftir að hún týndist

Dimma er nú komin í pössun áður en hún verður …
Dimma er nú komin í pössun áður en hún verður send til Noregs til eiganda síns. Ljósmynd/Villikettir

Læðan Dimma fannst í síðustu viku eftir að hafa týnst þar sem hún var í pössun í október 2018. 

„Við vorum beðin um aðstoð í síðustu viku og við fórum og náðum henni. Þegar við vorum búin að skanna hana þá komumst við að því að hún átti eiganda og við fundum hann, en hann býr í Noregi,“ segir Arn­dís Björg Sig­ur­geirs­dótt­ir, formaður Villikatta, í samtali við mbl.is.

„Hún fer heim til sín, hún fer í flug til Noregs, litla drottningin.“

Dimma hafði komið sér fyrir í holu undir bílskúr í Hlíðunum, en á Facebook síðu Villikatta er sagt frá sögu hennar.

Bælið sem Dimma hafði gert fyrir sig í holu undir …
Bælið sem Dimma hafði gert fyrir sig í holu undir bílskúr í Hlíðunum. Ljósmynd/Villikettir

Hún var skítug og tætt þegar sjálfboðaliðar Villikatta fönguðu hana, en vegna þess að hún var örmerkt var hægt að finna eiganda hennar.

„Það er ótrúlegt hvað hún hefur verið dugleg að sjá um sig sjálfa. Hún hlýtur að hafa komist í mat einhvers staðar, þetta er svo langur tími. Hún var alls óvön að vera úti.“

Sjálfboðaliðar Villikatta náðu að fanga Dimmu í fellibúr.
Sjálfboðaliðar Villikatta náðu að fanga Dimmu í fellibúr. Ljósmynd/Villikettir

Ekki allir sem lifa af

Arndís segir það gerast reglulega að Villikettir nái köttum sem hafa verið týndir í lengri tíma, en því miður nái ekki allir heimiliskettir sem týnast að lifa af, þeir kunni illa á útiveruna.

„Það er oft þegar fólk er að tala um að kisur hafi komið inn til sín og borði kattamat frá sinni kisu, kalli það þær kisur villikisur, en það er bara ekki þannig. Villikisur myndu aldrei fara inn til nokkurs manns. Þetta eru því oft og á tíðum týndar kisur sem lenda á vergangi og eru að bjarga sér,“ segir Arndís.

„Það er orðin meiri vitundarvakning um það núna að láta okkur vita ef þetta gerist. Við komum á staðinn og náum í kisur.“

mbl.is