Geta fundið fyrir einkennum í nýjum Fossvogsskóla

Tveir þriðju hlutar húsnæðis Fossvogsskóla hefur verið endurnýjað.
Tveir þriðju hlutar húsnæðis Fossvogsskóla hefur verið endurnýjað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gera má ráð fyrir því að allra viðkvæmustu einstaklingarnir geti fundið fyrir einkennum ofnæmis vegna myglu þó að öllum verkferlum hafi verið fylgt og allt endurnýjað, bæði húsnæði og búnaður Fossvogsskóla. Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn mbl.is.

Virkjuð hafa verið sérstök teymi í kringum börn sem finna fyrir einkunnum í samráði við foreldra.

„Öll sem komið hafa að framkvæmdum í Fossvogsskóla hafa lagt sig fram um að bæta alla verkferla varðandi flutning á munum. Þau eru líka sammála um að húsin eigi að standast allar kröfur. Þó er ekki útilokað að húsbúnaður og munir eða aðrir utanaðkomandi þættir valdi einkennum nemenda,“ segir í svarinu.

Sérhæfð hreinsun ætti að vera nóg

Greint var frá því í fyrr í þessum mánuði að skólastjóri Fossvogsskóla hefði óskað eftir því að betur yrði farið yfir þau viðmið sem notuð voru við flutning á gögnum, búnaði og húsgögnum úr Korpuskóla, eftir að ábendingar bárust frá foreldrum tveggja barna í skólanum um að þau fyndu fyrir einkennum ofnæmis.

Börnin í Fossvogsskóla fengu aðstöðu í Korpuskóla á meðan unnið var að endurgerð skólabygginga í Fossvogi vegna myglu sem kom þar upp. Þegar kennsla hóst svo aftur í Fossvogsskóla í haust var búnaður þrifinn og fluttur þangað úr Korpuskóla, samkvæmt ráðgjöf verkfræðistofunnar Eflu, en mygla kom einnig í ljós í Korpuskóla á meðan nemendur úr Fossvogsskóla höfðu aðstöðu þar.

Samkvæmt svörum borgarinnar er almenn ráðgjöf sú að hlutir með slétt yfirborð, sem hægt er að þrífa, eigi að vera í lagi eftir sérhæfða hreinsun.

En eftir að í ljós kom að nemendur í Fossvogsskóla fundu ennþá fyrir einkennum ofnæmis vegna myglu var tekin ákvörðun um að fjarlægja allan búnað sem hafði verið fluttur úr Korpuskóla.

Framkvæmdum lýkur ekki fyrr en haustið 2024 

Framkvæmdir við Fossvogsskóla standa enn þó starfsemi hafi hafist þar að nýju í haust. Tveir þriðju hlutar af húsnæði skólans nú verið endurnýjaðir, en samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru framkvæmdir á áætlun og áætluð verklok eru haustið 2024.

Framkvæmdum er nánast lokið í þeirri álmu skólans sem kallast Vesturland, en bið eftir hurðum sem framleiddar eru erlendis, veldur því að ekki er hægt að segja húsnæðið tilbúið að fullu. Þá er enn unnið að endurnýjun á álmunni Meginlandi.

Nokkur röskun hefur verið á skólastarfi Fossvogsskóla í haust vegna framkvæmdanna og töluverður hávaði hefur fylgt þeim sem hefur valdið bæði nemendum og kennurum ónæði.

Í svari borgarinnar segir að öllum framkvæmdum fylgi röskun og ekki verið hjá því komist að hávaði heyrist af og til þar sem iðnaðarmenn séu að störfum. Almenn ánægja sé þó meðal starfsfólks og annarra með þá vinnu sem gerð hafi verið á skólahúsnæðinu.

mbl.is