Íbúðamarkaðurinn fer kólnandi

Una Jónsdóttir, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans.
Una Jónsdóttir, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta þýðir að íbúðamarkaðurinn sé farinn að kólna,“ segir Una Jónsdóttir, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, um 0,4% lækkun á vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Telur hún líklegt að lækkunin muni leiða til enn frekari hjöðnunar verðbólgunnar.

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 946,9 í ágúst og lækkar um 0,4% á milli mánaða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þá segir í umræddri tilkynningu að síðastliðna 3 mánuði hækkaði vísitalan um 2,9%, síðastliðna 6 mánuði hækkaði hún um 12,2% og síðastliðna 12 mánuði hækkaði hún um 23%.

Mesta lækkun í þrjú og hálft ár

Um er að ræða mestu lækkun síðan í febrúar 2019 að sögn Unu sem segir lækkunina vera merkileg tíðindi. Aftur á móti er varasamt að draga of miklar ályktanir af einstaka lækkun þó að lækkunin sé skýr vísbending um að markaðurinn sé að kólna.

„Þetta eru merkileg tíðindi því þetta hefur ekki gerst lengi. Við höfum séð hækkanir á bilinu 2% og upp í 3%, en það var staðan frá því í febrúar og til júní. Svo allt í einu kemur snögg kólnun. Þetta er bara merki um að við erum að fara að sjá rólegri tíð og hraðari hjöðnun verðbólgunnar,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Aðspurð segir hún lækkunina gera það að verkum að verðbólgan muni hjaðna hraðar.

„Hún mun hjaðna hraðar en við gerðum ráð fyrir upphaflega. Þetta eru jákvæð tíðindi inn í verðbólgu þróunina því húsnæðisverð hefur verið mikill drifkraftur hennar. Núna er líklegt að við sjáum verðbólguna hjaðna.“

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 946,9 í ágúst og lækkar …
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 946,9 í ágúst og lækkar um 0,4% á milli mánaða. mbl.is/Sigurður Bogi

Rólegri tíð á fasteignamarkaðnum

Um samspil fasteignaverðs og lækkunar á vísitölu íbúðaverðs segir Una að rólegri tíð sé að vænta á fasteignamarkaðinn.

„Ég hugsa að þetta gefi vísbendingu um að við fáum aðeins rólegri tíð. Það verður meira til sölu, lengri sölutími og hóflegri hækkanir. Þetta er bara vísbending um að þetta sé það sem koma skal.“

Ómögulegt sé að segja til um hvort til frekari lækkunar megi vænta að sögn Unu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert