Viðvörunarkerfi vonandi væntanlegt í mánuðinum

Unnið er að nýju viðvörunarkerfi í Reynisfjöru.
Unnið er að nýju viðvörunarkerfi í Reynisfjöru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonir standa til þess að að nýtt viðvörunarkerfi verði sett upp í Reynisfjöru í mánuðinum „eða á allra næstunni“, að sögn Björns Inga Jónssonar, verkefnastjóra almannavarna hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi.

Björn segir að unnið sé hörðum höndum að því að hanna skiltið og koma því fyrir í fjörunni en að nákvæm dagsetning liggi þó ekki fyrir.

Hann bendir á að verið sé að finna kerfinu undirstöðu og hanna það um leið en það þarf að hanna eftir því hvert það fer. „Svo það er hvort tveggja í vinnslu og allt á fullri ferð svo vonandi fer það að birtast fljótlega,“ segir Björn.

Mikil umræða skapaðist um aðgengi ferðamanna að Reynisfjöru og hvernig væri hægt að koma í veg fyrir banaslys eftir að erlendur ferðamaður lést þar í júní.

Skilti með viðvörunarljósum

Skiltið sem um ræðir verður með viðvörunarljósum og byggist meðal annars á öldusporkerfi Vegagerðarinnar á grunnsævi en að sögn Björns á að nota það til að stýra viðvörunarskiltum.

Hann bendir þó á að kerfið gefi ekki til kynna að það sé öruggt að vera í fjörunni heldur að það sé „kannski misvarhugavert að vera þarna“.

Sett verður eitt viðvörunarskilti og á því verða ljós, bæði gul og rauð. Byggt er á sömu hugmyndafræði og sést oft á ströndum erlendis þar sem notuð eru flögg. Fyrir neðan blikkandi ljósin verður svo kerfið útskýrt.

„Svo erum við líka að vinna í minni leiðbeiningarskiltum á svæðinu og reyna að búa til heilsteypt upplýsingaflæði til að fanga athygli ferðamanna þannig að þeir átti sig á aðstæðum þarna.“

Björn bætir við að kerfið sé unnið í góðri samvinnu við landeigendur, Ferðamálastofu, Vegagerðina og Veðurstofuna.

mbl.is