Vindmyllan féll loksins

Eftir um eina og hálfa klukkustund tókst að fella vindmylluna.
Eftir um eina og hálfa klukkustund tókst að fella vindmylluna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seinni vindmyllan í Þykkvabæ er nú fallin eftir að starfsmenn Hringrásar höfðu fyrst skorið á undirstöðurnar með logskurðartæki og svo tjakkað upp eina hlið myllunnar þannig að hún félli á hliðina.

Talsverða athygli vakti þegar fyrri vindmyllan var felld fyrr á þessu ári, en þá var notast við sprengiefni. Tafðist sú vinna talsvert og reyndist þrautinni þyngra að fella vindmylluna.

Seinni vindmyllan í Þykkvabæ féll í dag.
Seinni vindmyllan í Þykkvabæ féll í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Upphaflega var áætlað að vinnan í dag tæki ekki nema um hálftíma, en hún tók þó talsvert lengri tíma. Upphaflega var beðið eftir tökumönnum frá Rúv sem voru seinir á vettvang og síðan tók sjálf vinnan lengri tíma. Þegar ljóst var að brennslan með logskurðartækjunum ein og sér myndi ekki duga gripu starfsmenn Hringrásar til þess að sækja tjakk sem tjakkaði upp eina hlið myllunnar. Var svo aftur gripið til logskurðartækjanna og sá að lokum þyngdaraflið um restina.

Tvær vind­myll­ur stóðu í Þykkvabæ en þær eyðilögðust báðar í bruna. Önnur myll­an var felld af sprengju­sveit Land­helg­is­gæsl­unn­ar í apríl á þessu ári og er nú komið að þeirri seinni. 

Þegar spaðarnir rákust á jörðina þyrlaðist moldin upp.
Þegar spaðarnir rákust á jörðina þyrlaðist moldin upp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fé­lagið Há­blær, eig­andi vindraf­stöðvanna í Þykkvabæ, áform­ar að reisa tvær nýj­ar og af­kasta­meiri vind­myll­ur á und­ir­stöðum þeirra gömlu. 

 

mbl.is