Áminning um alvarlega stöðu Íslands

Útkallstíðni sérsveitarinnar hefur aukist til muna.
Útkallstíðni sérsveitarinnar hefur aukist til muna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er að undirbúa skref þar sem við bregðumst við þessu af fullri hörku, þeirri þróun sem er að verða í íslensku samfélagi. Þetta er verulegt áhyggjuefni,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í  samtali við mbl.is um aðgerðir sérsveitar ríkislögreglustjóra í dag. 

Eins og greint hefur verið frá voru fjórir handteknir í dag vegna rannsóknar ríkislögreglustjóra sem snýr að skipulagðri glæpastarfsemi og viðamiklum vopnalagabrotum. Lögreglan sagði í tilkynningu að hættuástandi hefði verið afstýrt.

Jón kveðst ekki vera búinn að fá neinar frekari upplýsingar um aðgerðir sérsveitarinnar í dag. Hann segir þetta mál þó áminningu um alvarlega stöðu Íslands þegar það kemur að vopnuðum glæpum og skipulagðri glæpastarfsemi.

Stendur til að efla lögregluna

Að mati Jóns eiga ofbeldisfull brot sér stað of reglulega á Íslandi. Hann bætir þá við að mikil vinna standi nú yfir innan ráðuneytisins sem miði að því að efla lögregluna til að geta betur tekist á við svona glæpastarfsemi.

„Það er gífurlega mikilvægt að við hugum að lögreglumönnunum okkar og hvernig þeir eru í stakk búnir til að verja okkur hin. Það er mikilvægt að tryggja öryggi lögreglunnar við þessi hættulegu störf,“ segir Jón og bætir við að til standi að gefa lögreglunni þau verkfæri sem þurfi til að tryggja öryggi þeirra.

Spurður hvort til greina komi að auka vopnaburð hjá lögreglunni segist Jón ekki vera að boða það. 

Útkallstíðni sérsveitar aukist til muna

„Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við erum ekki langt frá þeirri veröld þar sem svona atburðir eru að gerast miklu oftar. Þróunin er augljóslega í þá átt. Það sést á útkallstíðni sérsveitarinnar, hún hefur aukist mjög mikið.“

Hann bætir þá við að þess megi vænta að tillögur frá honum um hvernig tryggja megi öryggi lögreglumanna muni berast fljótlega. Hann segist ekki vilja tjá sig um hvað felist í þeim tillögum eins og stendur. 

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagðist ekki vilja tjá sig um málið að sinni þegar mbl.is náði tali af henni.

mbl.is

Bloggað um fréttina