Erla með ólæknandi krabbamein

Erla Bolladóttir á þá ósk heitasta að fá lyktir í …
Erla Bolladóttir á þá ósk heitasta að fá lyktir í mál sitt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til greina kemur að mál Erlu Bolladóttur fari til Mannréttindadómstóls Evrópu, en endurupptökudómur hafnaði í síðustu viku beiðni Erlu Bolla­dótt­ur um um end­urupp­töku á máli Hæsta­rétt­ar nr. 214/​1978 frá  22. fe­brú­ar 1980, að því er varðar rang­ar sak­argift­ir á  hend­ur Magnúsi Leópolds­syni, Ein­ari Gunn­ari Bolla­syni, Valdi­mar Ol­sen og Sig­ur­birni Ei­ríks­syni.

„Ég hef sett mér það að meðan það er leið, þá fer ég hana,“ sagði Erla Bolladóttir á blaðamannafundi sem hún boðaði til vegna niðurstöðu endurupptökudómsins. 

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður Erlu, tók undir með henni að skoðað yrði hvort farið yrði með málið til Mannréttindadómstólsins. Til þess að það væri hægt yrði að vera komin endanleg niðurstaða í málið innanlands, sem liggur nú fyrir með úrskurði endurupptökudómstólsins. 

Á þá ósk heitasta að fá lyktir í málið

Erla greindi frá því á fundinum að hún hefði greinst með ólæknandi krabbamein og sagðist hún eiga þá ósk heitasta að fá lyktir í málið.

„Ég á enga ósk heitari hvað mig persónulega varðar en að þetta mál fái sín endalok og að það fari fram formlega jarðarför á öllu saman. Það gerist ekki nema réttlætið komi fram.“

Úrskurður felldur úr gildi í janúar

End­urupp­töku­nefnd hafnaði máli Erlu árið 2017 en ákveðið var að taka upp mál þeirra sem dæmd­ir voru fyr­ir aðild að hvarfi Guðmund­ar Ein­ars­son­ar í Hafnar­f­irði í janú­ar 1974 og Geirfinns Ein­ars­son­ar í Kefla­vík í nóv­em­ber árið 1974.  Voru þeir sýknaðir í Hæsta­rétt­i árið 2018.

Héraðsdómur felldi úrskurð endurupptökunefndar úr gildi í janúar á þessu ári og í kjölfarið fór mál Erlu fyrir endurupptökudómstólinn, sem hefur nú hafnað endurupptöku á málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert