Ríða á vaðið eftir titring í skákheiminum

Hans Niemann er sakaður um að hafa svindlað með hjálp …
Hans Niemann er sakaður um að hafa svindlað með hjálp þráðlausra endaþarmsperlna. Samsett mynd

Kynlífstækjaverslunin Blush hefur blásið til skákmóts undir yfirskriftinni Boðsmót Blush. Skákmótið er haldið í kjölfar erja á milli heimsmeistarans Magnúsar Carlsen og stórmeistarans Hans Niemann, og verður í samstarfi við hlaðvarpið Chess after dark.

Illdeilur skákmannanna hófust þegar Niemann bar sigur úr býtum gegn Carlsen á Sinqufield-mótinu í St. Louis í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum. Carlsen hætti keppni í kjölfarið og sakaði Niemann um að hafa svindlað. 

Þráðlausar endaþarmsperlur?

Stuttu eftir það kom upp orðrómur í skákheiminum og víðar um að Niemann hafi svindlað með aðstoð kynlífstækis. Þá hafa fjölmargir miðlar fjallað um það að mögulega hafi Niemann svindlað með því að setja þráðlausar endaþarmsperlur sem titra inn í endaþarminn á sér.

Vilja þeir sem trúa þessum orðróm meina að aðstoðarmaður hafi verið staddur í öðru herbergi og veitt Niemann ráð um næsta leik með því að láta endaþarmsperlurnar titra með fjarstýringu.

Fengu innblástur frá orðrómnum

Birkir Karl Sigurðsson, annar stjórnenda hlaðvarpsins Chess after dark, staðfestir í samtali við mbl.is að hugmyndin að skákmótinu hafi einmitt sprottið út frá þessum orðrómi um meint svindl Niemann.

„Svo að því sé haldið til haga þá er þetta fiskisaga enn þá, að hann hafi verið með svokölluð anal beads í endaþarminum á sér og að einhver hafi verið að stjórna með fjarstýringu hvað hann ætti að leika,“ segir Birkir og kveðst mjög spenntur fyrir skákmótinu og glaður yfir því að Blush hafi verið til í samstarfið. 

„Það er bókstaflega búinn að vera mikill titringur í skákheiminum,“ bætir Birkir við kíminn.

Hvatt til svindls

Mótið verður haldið 29. september og er skráningu í mótið að ljúka að sögn Birkis. Hann tekur fram að 30 til 40 bestu skákmenn landsins séu skráðir til leiks og að það stefni allt í hörku mót. 

Spurður hvort þeir búist við einhverju svindli á mótinu segir Birkir í gríni að í raun sé hvatt til svindls, svo lengi sem það sé gert að hætti hússins.

„Ef einhver vill ganga svo langt að vinna mótið þannig þá má hann bara fá verðlaunin.“

Birkir tekur fram að það sé til mikils að vinna á mótinu en vinningarnir nema samtals um 400 þúsund krónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert