Sidekick Health og Lauf Forks fá Nýsköpunarverðlaun

Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf Forks og Tryggvi Þorgeirsson, læknir og …
Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf Forks og Tryggvi Þorgeirsson, læknir og forstjóri Sidekick Health veittu verðlaununum viðtöku úr hendi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirtækin Sidekick Health og Lauf Forks hlutu í gær Nýsköpunarverðlaun Íslands, en að þessu sinni voru veitt verðlaun fyrir árin 2021 og 2022. Hlaut Sidekick Health verðlaun árið 2021 og Lauf Forks árið 2022.

Sidekick Health þróar og markaðssetur stafrænar heilbrigðismeðferðir í samstarfi við stærstu lyfja- og sjúkratryggingafélög í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar á meðal eru alþjóðlegu lyfjafyrirtækin Pfizer, Bayer og Eli Lilly auk Elevance Health, sem er annað stærsta sjúkratryggingafélag Bandaríkjanna. Markmið félagsins er að styðja við sjúklinga utan veggja heilbrigðiskerfisins, draga úr álagi á heilbrigðisstarfsfólk og auka virkni hefðbundinna heilbrigðismeðferða. Sidekick vinnur einnig að rannsóknarverkefnum í nánu samstarfi við heilbrigðisstofnanir hérlendis og erlendis.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að fyrirtækið einbeiti sér að nýsköpun sem leiði til mikils samfélagslegs ávinnings í gegnum bætta heilsu fólks. Félagið búi yfir mikilli þekkingu sem hafi leitt af sér öflugt þróunarstarf innanlands. Einnig hafi það vakið athygli stórra aðila sem hafi unnið með fyrirtækinu. 

Lauf Forks var stofnað árið 2011 í kringum hugmynd að framúrstefnulegum fjöðrunargaffli fyrir reiðhjól sem var sérhannaður fyrir lítil högg. Fyrir á markaði voru einungis stífir gafflar (án fjöðrunar) og svo þungir og viðhaldsfrekir fjöðrunargafflar gerðir fyrir stærri högg og grófari fjallahjólreiðar. Þróunarvinna félagsins hefur leitt af sér fjöðrunartækni sem hefur sérstöðu á markaði og er einkaleyfisvarin. Í dag er helsta afurð félagsins hjól í flokki malarhjóla sem byggja á fjöðrunartækninni.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Lauf Forks sé framúrskarandi fyrirtæki sem hafi byrjað sem hugmynd hjá ungum frumkvöðlum. Það hafi tekið fyrirtækið nokkur ár að öðlast viðurkenningu á markaði með tækni sína. Laufforks sé nú með víðtækt og sterkt einkaleyfi á tækninni en tæknin hefur gert fyrirtækinu kleyft að selja heil hjól sem hafa sérstöðu gagnvart keppinautum.

Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Hugverkastofunni og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu.

mbl.is