„Allt saman byggt á sandi“

Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is

Verjendur þeirra Guðlaugs Agnars Guðmundssonar, Guðjóns Sigurðssonar og Halldórs Margeirs Ólafssonar, sögðu ekkert í gögnum lögreglu benda til þess að þeir hafi staðið að innflutningi á saltdreifara frá Hollandi til Íslands.

Þetta kom fram í málflutningi verjendanna í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þeir eru ákærðir fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfelld fíkniefnalagabrot í hinu svokallaða saltdreifaramáli.

Frá héraðsdómi í morgun.
Frá héraðsdómi í morgun. mbl.is

Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Guðlaugs Agnars, sagði ekkert hafa komið fram sem sýni fram á aðild umbjóðanda síns að málinu. Ekkert vitni hafi til að mynda stigið fram sem sýndi fram á sekt hans.

Gáleysi að trúa að ekkert væri í dreifaranum

Stefán Ragnarsson, lögmaður Guðjóns, sagði umbjóðanda sinn hafa hafa tekið við saltdreifaranum vorið 2020 eftir að Halldór Margeir kom að máli við hann um að geyma dreifarann á landareign Guðjóns, Hjallanesi, gegn greiðslu.

Sigurður G. Guðjónsson og Stefán Ragnarsson í dómsal í morgun.
Sigurður G. Guðjónsson og Stefán Ragnarsson í dómsal í morgun. mbl.is

Guðjón hafi ekki haft sérstakar grunsemdir um að eitthvað ólöglegt hafi leynst í tækinu. Hann hafi spurt Halldór sérstaklega um það til að vera viss og Halldór hafi svarað því neitandi. Guðjón hafi því samþykkt að dreifarinn yrði geymdur á Hjallanesi þar sem hægt væri að selja hann. Halldór hafi síðar sagt við hann að fíkniefni væru í dreifaranum og of seint væri fyrir Guðjón að bakka út úr málinu.

Stefán sagði að það kunni að vera að Guðjón hafi sýnt af sér mikið gáleysi með því að trúa því að ekkert væri í tækinu.

Áður hafði sækjandinn í málinu sagt Guðjón vera ábúanda á jörðinni þar sem saltdreifarinn var geymdur. Ótrúverðugt væri að hann hafi ekkert sagst þekkja til fíkniefna í dreifaranum þegar á sama landi hafi hann verið með kannabisræktun, sem hann er einnig ákærður fyrir.

Ákæruvaldið hafi flýtt sér

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Halldórs Margeirs, sagði rannsókn málsins ekki vera lokið og að ákæruvaldið hafi flýtt sér þar sem því hafi þótt mikilvægt að Ólafur Ágúst og Halldór Margeir skyldu sæta varðhaldi á grundvelli almannahagsmuna áður en frestur til þess að fara fram á það rann út. Vilhjálmur sagði jafnframt „algjörlega óskiljanlegt“ að ekki hafi verið teknar skýrslur af tveimur aðilum sem tengdust málinu í Hollandi og sömuleiðis af tveimur Ísraelsmönnum.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson í héraðsdómi í morgun.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson í héraðsdómi í morgun. mbl.is

Einsdæmi

Vilhjálmur bætti við að það væri einsdæmi að sá sem flutti saltdreifarann inn til landsins, þ.e. greiddi tollinn fyrir hann hérlendis í gegnum fyrirtækið Hófjárn, hafi verið með réttarstöðu vitnis í málinu en ekki sakbornings. Sömuleiðis dró Vilhjálmur í efa lögmæti þess að lögreglan nýtti sér gögn úr samskiptaforritinu EncroChat við rannsókn málsins en franska lögreglan braust inn í þau fyrir tveimur árum. Halldór hafni því jafnframt að hafa notað forritið og hann sé því ekki ResidentKiller eins og sækjandi heldur fram. Einnig heldur sækjandi því fram að Guðlaugur sé NuclearFork í forritinu og saman hafi þeir Halldór spjallað þar saman um saltdreifarann.

„Það sem ákæruvaldið og lögreglan leyfir sér að halda sig fram í þessu máli, þetta er allt saman byggt á sandi,“ sagði Vilhjálmur.

Jón Magnússon í héraðsdómi.
Jón Magnússon í héraðsdómi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin glóra að dæma til þungra refsinga

Jón Magnússon, lögmaður Ólafs Ágústs Hraundal, sagði skjólstæðing sinn hafa játað sök í meginatriðum í málinu, þ.e. hvað varðar kannabisræktun í útihúsi á Hellu, en að hann harðneiti því að hafa átt hass sem fannst í hesthúsi í Víðidal og að vera eigandi að fíkniefnum í bílskúr í Hafnarfirði.

Jón sagði enga glóru í því að dæma menn til þungrar refsingar í málum sem þessum. Hann vísaði í ritgerð Helga Gunnlaugssonar í ritinu 100 ára saga Hæstaréttar þar sem hann ræddi um þunga dóma til að byrja með í tengslum við fíkniefnið MDMA, vegna þess að hræðsla hafi verið við hið óþekkta. Vitnaði hann í Helga um meiri refsihörku hér á landi í fíkniefnamálum miðað við annars staðar í Evrópu.

Aukaleikari

Guðmundur St. Ragnarsson, verjandi Geirs Elís Bjarnasonar, sagði óhætt að kalla skjólstæðing sinn aukaleikara í málinu, en ákæruvaldið fer fram á að hann verði dæmdur í tveggja ára fangelsi. Hann hafi ekki tekið vísvitandi þátt í skipulagðri brotastarfsemi. Þátttaka hans hafi verið afmörkuð og þröng og hann hafi komið seint inn í ferlið. Réttlátur dómur yfir honum væri skilorðsbundinn 18 mánaða dómur. 

Verjandi bílasölu síðastur í pontu

Verjandi bílasölu steig loks í pontu en framhaldsákæra var gefin út á hendur fyrirtækinu 14. september. Verjandinn sagði ákæruna snúast um að bílasalan hafi selt bíl sem ákæruvaldið krefjist upptöku.

Verjandinn krafðist þess að upptökukröfunni yrði vísað frá. Bíllinn, sem sé 15 til 18 milljóna króna virði, hafi samkvæmt ákæruvaldinu verið notaður til að flytja einn ákærða og einhver tæki vegna kannabisræktunar. Hann sagði bílasöluna hafa selt bílinn, en ekki fengið greitt fyrir hann og ekki haft hugmynd um að Ólafur Ágúst hafi notað hann til glæpsamlegs athæfis, hafi hann þá gert það. 

mbl.is