„Ég hef ekki þagað um þessi mál“

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist hafa haft það fyrir sið að tjá sig ekki um mál sem séu til rannsóknar. Hún vísar því á bug að hún hafi þagað um mál sem varðar rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á máli sem varðar fjóra blaðamenn. 

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þar spurði Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, forsætisráðherra út í viðbrögð við rannsókn lögreglunnar og færslu sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra birti á Facebook í tengslum við málið. 

„Þegar þessi ríkisstjórn tók við tók hæstvirtur forsætisráðherra að sér málaflokk mannréttinda og mannréttindasamninga. Þess vegna hefur þögn hæstvirts forsætisráðherra í þessu máli verið eftirtektarverð. Hér eru undir grundvallarmannréttindi. Tjáningarfrelsi blaðamanna, lífæð lýðræðisins. Lögreglan misnotar vald sitt til þess að þagga niður í blaðamönnum fyrir að flytja fréttir. Hæstvirtur fjármálaráðherra mætir á sviðið til þess að segja blaðamönnum að hunskast bara í yfirheyrslu og hætta að vera svona góðir með sig. Hefur hæstvirtur ráðherra mannréttindamála engar áhyggjur af þessari atburðarás? Telur hún ekkert athugavert við vinnubrögð lögreglunnar eða er hún sammála afstöðu hæstvirts fjármálaráðherra,“ spurði Arndís. 

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef ekki þagað um þessi mál,“ sagði Katrín og bætti við að hún hafi sömuleiðis látið verkin tala. T.d. hafi hún átt frumkvæði að því árið 2011 að koma á lagaákvæði um vernd heimildamanna í lögum um fjölmiðla. Þá hafi réttarstaða blaðamanna verið bætt verulega. Katrín tók enn fremur fram að hún hefði beitt sér fyrir úrbótum á upplýsingalögum til að styrkja stöðu fjölmiðla. 

Lögreglunni ber að fara sérstaklega varlega

Þá telur forsætisráðherra það ljóst að lögreglan verði að vera mjög meðvituð um það að allar rannsóknaraðgerðir sem beinist gegn fjölmiðlum geti haft fælingaráhrif gagnvart þeim fjölmiðlum og því „ber lögreglunni að fara sérstaklega varlega þegar um er að ræða frjálsa fjölmiðla sem eru að fjalla um viðkvæm mál í samfélaginu í sínum rannsóknum. Þetta hef ég áður sagt og ítreka það hér með.“

Katrín segir enn fremur, að það þurfi ekki að koma Arndísi á óvart að ráðherrar í ríkisstjórn séu ekki allir með einu og sömu ríkisskoðunina þegar um er að ræða þrjár ólíka flokka.

„En ég hlýt hins vegar að hafna því algjörlega þegar háttvirtur þingmaður gefur hér til kynna með orðum sínum að stjórnvöld séu með andlýðræðislegum hætti að stöðva vinnu fjölmiðla. Ég hlýt að segja það hér að við verðum að treysta því að réttarkerfið og lögregla starfi samkvæmt þeim reglum sem hafa verið settar. Og ég hlýt að minna á það aftur að þar eru atriði eins og vernd heimildarmanna, vernd uppljóstrara og aðrir þættir sem ég persónulega hef beitt mér fyrir að yrðu sett í lög og hafa verið sett í lög vegna þess að Alþingi Íslendinga, og þetta hefur verið í allgóðri sátt hér á þingi, þó ekki allt, hefur verið sammála um að það er mikilvægt að vernda stöðu frjálsra fjölmiðla. Ég tel varhugavert að tala hér um andlýðræðisleg stjórnvöld og hafna því,“ segir forsætisráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert