Norðurvígi sendir frá sér yfirlýsingu

Frá upplýsingafundi lögreglu vegna aðgerða sérsveitarinnar.
Frá upplýsingafundi lögreglu vegna aðgerða sérsveitarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norræna mótstöðuhreyfingin, einnig þekkt sem samtökin Norðurvígi sem bendluð hafa verið við nýnasisma, hefur sent frá sér yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem hreyfingin segist ekki tengjast neinum öfgahópum.

Þá sé hún ekki með fólk innan sinna raða sem ætli sér að fremja hryðjuverk, en samkvæmt yfirskrift yfirlýsingarinnar er tilefni hennar handtaka lögreglu á fjórum mönnum vegna gruns um undirbúning hryðjuverka.

Í yfirlýsingunni segir að í „æsifréttamennsku“ Fréttablaðsins og fleiri fjölmiðla hafi verið reynt að mála hreyfinguna sem öfgasamtök.

Vinnandi fólk og borgi skatta og skyldur

„Við erum vinnandi fólk eins og svo margir aðrir, borgum okkar skatta og skyldur. Við einbeitum okkur á að upplýsa fólk með ræðum og riti og hvetjum ekki til ofbeldis. Hins vegar verjum við okkur ef á okkur er ráðist.“

Þá vísar hreyfingin til fréttar sem Fréttablaðið skrifaði um áhyggjur lögreglu af samtökunum Norðurvígi í fyrra.

„Við viljum benda á að Norræna mótstöðuhreyfingin í Svíþjóð er löglega skráður flokkur þar í landi og tók þátt í kosningunum núna síðustu tvö skiptin. Hvetjum við fólk um [sic] að kynna sér betur okkar málefni og ekki láta æsifréttamennskuna mata sig,“ segir einnig í yfirlýsingunni.

mbl.is