Rannveig og Eiríkur nýir sviðsstjórar hjá borginni

Eiríkur Björn Björgvinsson og Rannveig Einarsdóttir.
Eiríkur Björn Björgvinsson og Rannveig Einarsdóttir. Samsett mynd

Rannveig Einarsdóttir hefur verið ráðin nýr sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Eiríkur Björn Björgvinsson hefur verið ráðinn í stöðu sviðsstjóra nýs sameinaðs sviðs menningar, íþrótta- og tómstunda.

Borgarráð samþykkti ráðningarnar á fundi sínum í morgun. Reykjavíkurborg auglýsti lausar stöður tveggja sviðsstjóra í ágúst síðastliðnum og bárust 18 umsóknir um stöðu sviðsstjóra velferðarsviðs, og 56 umsóknir um stöðu sviðsstjóra menningar, íþrótta- og tómstundasviðs. Níu drógu umsóknir til baka. Hæfnisnefndir sem skipaðar voru um hvora stöðu skiluðu af sér tillögur um ráðningar sem lagðar voru fyrir borgarráð, að því er segir á vef Reykjavíkurborgar. 

Gera athugasemdir vegna vinnubragða við ráðningarferli Eiríks

Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lét bóka athugasemd vegna ráðningar Eiríks sem er svohljóðandi:

„Athugasemdir vegna vinnubragða við ráðningarferli sviðsstjóra menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs, sem bókaðar voru fyrr í ferlinu, eru ítrekaðar. Athygli vekur að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru nokkrir umsækjendur með afar víðtæka og farsæla stjórnunarreynslu á sviði íþrótta-, tómstunda- og/eða menningarmála, ekki boðaðir í viðtal vegna ráðningar í umrætt starf. Nýjum sviðsstjóra er óskað velfarnaðar í störfum sínum.“

Ekki voru gerðar athugasemdir við ráðningarferli Rannveigar. 

Samdóma álit hæfnisnefndar

Fram kemur í tilkynningu Reykjavíkurborgar, að það hafi verið samdóma álit hæfnisnefndar sem fór yfir umsóknir og tók viðtöl við umsækjendur að Rannveig uppfyllti best umsækjenda þær kröfur sem gerðar eru til starfs sviðsstjóra og fram komu í auglýsingu um starfið. 

Rannveig Einarsdóttir er með B.A. gráðu í félagsfræði og nám til starfsréttinda í félagsráðgjöf og meistaragráðu, MPA í opinberri stjórnsýslu, hvoru tveggja frá Háskóla Íslands. Hún starfaði á árunum 1986-1989 sem félagsmálastjóri hjá Ísafjarðarkaupstað og félagsráðgjafi hjá Hafnarfjarðarbæ og Grindarvíkurbæ. Þá gegndi hún stöðu yfirfélagsráðgjafa fjölskyldu- og félagsþjónustu Keflavíkur og Reykjanesbæjar í 22 ár og var á þeim tíma einnig staðgengill félagsmálastjóra og framkvæmdastjóri barnaverndar Reykjanesbæjar. Undanfarin 11 ár hefur Rannveig gegnt stöðu sviðsstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs og leiðtoga velferðarþjónustu Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Þá var það samdóma álit hæfnisnefndar sem fór yfir umsóknir og tók viðtöl við umsækjendur að Eiríkur Björn uppfyllti best umsækjenda þær kröfur sem gerðar eru til starfs sviðsstjóra og fram komu í auglýsingu um starfið. 

Eiríkur Björn Björnsson er með B.Ed. íþróttakennarapróf sem framhalds- og grunnskólakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugavatni. Hann er með diplóma í stjórnun frá Kennaraháskóla Íslands, diplóma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og hefur einnig lokið öllum áföngum til meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Eiríkur starfaði sem æskulýðs- og íþróttafulltrú Egilstaðabæjar í tvö ár og deildarstjóri íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrarbæjar í sex ár. Hann var bæjarstjóri Austur-Héraðs í tvö ár sem sameinaðist Fljótsdalshéraði og gegndi hann stöðu bæjarstjóra þar í sex ár. Þá tók hann við stöðu bæjarstjóra Akureyrarbæjar, sem hann gegndi í átta ár. Undanfarin þrjú ár hefur hann starfað sem sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert