Sorgardagur og lögreglumönnum brugðið

Ætla má að lögregla og/eða Alþingi hafi verið skotmörk.
Ætla má að lögregla og/eða Alþingi hafi verið skotmörk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölnir Sæmundsson, formaður landsambands lögreglumanna, segir þó nokkra úr röðum lögreglu hafi lýst áhyggjum vegna þeirrar hryðjuverkaógnar sem tókst að afstýra í gær. Um sé að ræða sorgardag.

„Já, lögreglumönnum er auðvitað brugðið yfir þessu og hafa haft samband við mig í dag varðandi þetta. Menn hafa auðvitað áhyggjur,“ segir Fjölnir í samtali við mbl.is.

„Þetta er sorgardagur, finnst mér. Að það sé komin upp hryðjuverkaógn á Íslandi. Menn hafi ætlað sér að beita vopnum gegn almennum borgurum, lögreglu eða stofnunum ríkisins. Ég verð að segja að ég var bara frekar sleginn yfir þessu,“ bætir hann við.

Um málið sem slíkt kveðst Fjölnir ekkert vita.

Fram kom á blaðamannafundi ríkislögreglustjóra í dag að talið sé að mennirnir hafi ætlað að leggjast til atlögu gegn ríkisstofnunum og almennum borgurum. Fjölnir bendir á að lögreglu beri að vernda þær stofnanir og almenna borgara.

„Það sýnir auðvitað að lögreglumenn eru í hættu í sínum störfum.“

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna.
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjölga þurfi lögreglumönnum

Spurður hvort mál af þessu tagi dragi úr öryggistilfinningu lögreglumanna svarar hann því játandi en bendir á að á blaðamannafundinum hafi komið fram að hættunni hafi verið afstýrt.

„Já, þetta dregur kannski úr öryggistilfinningu en annars kom fram á fundinum í dag að þeir telja sig búna að ná utan um þetta.“

Málið sýni þó að fjölga þurfi lögreglumönnum. „Það fer ofboðslega mikill mannskapur í að rannsaka svona mál og fylgja því eftir. Það má áætla það að það fari um 50 manns í að rannsaka þetta og það er ansi mikið af um 750 lögreglumönnum á landinu.“

mbl.is