Geta ekki lengur hugsað sér að fara á árshátíð

Sérsveitin að störfum.
Sérsveitin að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er bara hræðilegt. Þú getur ímyndað þér að ef þú ert maki lögreglumanns og ætlaðir með honum á árshátíð að þú sért í lífshættu við það,“ segir Fjölnir Sæmundsson, formaður landssambands lögreglumanna.

Hann bætir við: „Það er alveg hræðilegt ef einhver hefur ætlað sér að ráðast á lögreglumenn og fjölskyldur þeirra í frítíma.“

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins sýndu mennirnir fjórir, sem voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum á miðvikudag, árshátíð lögreglumanna, sem halda á í næstu viku, sérstakan áhuga.

Fjölnir segir málið hræðilegt og bætir við að þetta sé ekki þjóðfélag sem við héldum að við byggjum í. „Þó svo maður viti nú ýmislegt verandi í lögreglunni um skuggahliðar samfélagsins. Þá er þetta einhver ný þjóðfélagsgerð.“

Einhverjir geti ekki hugsað sér að mæta

Fjölnir segist ekkert hafa heyrt um að fresta eigi árshátíðinni. „En ég hef svo sem heyrt að margir geti ekki lengur hugsað sér að fara á árshátíð og að makar lögreglumanna geti ekki hugsað sér að sækja árshátíð hjá lögreglunni þegar svona fréttir koma. Fólk er dálítið miður sín.“

Spurður hvort að funda eigi um þetta mál segir Fjölnir að stjórn landssambandsins muni auðvitað koma saman og ræða þetta en auk þess sé lögreglan með alls kyns spjallþræði og tölvupóstasamskipti og að málið sé í fullri umræðu.

„Það er bara hljóð í lögreglumönnum og þeir eru áhyggjufullir og velta fyrir sér á hvaða breytingar þetta kalli,“ segir Fjölnir.

Fjölnir Sæmundsson, formaður landssambands lögreglumanna.
Fjölnir Sæmundsson, formaður landssambands lögreglumanna. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is