Hættan stafar af „einmana úlfum“

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkislögreglustjóri segir að mál manna, sem handteknir voru grunaðir um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk, hafi ekki leitt til þess að lögregla hafi hækkað sitt hættustig.

„Það sem hefur hins vegar gerst á síðustu mánuðum og árum, er að það hefur verið stigvaxandi notkun á vopnum, sér í lagi hnífum,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri í samtali við mbl.is.

Þau málefni hafi verið rædd á vettvangi lögregluráðs auk þess sem lögreglumenn hafi fengið aukna þjálfun til að bregðast við slíkri hættu.

„En, við teljum okkur hafa tekist að koma í veg fyrir þetta mál og það er ekki búið að hækka stigið.“

Fyrsta sinnar tegundar

Fólk þurfi því ekki að óttast þetta tiltekna mál, eins og fram kom á blaðamannafundi fyrr í dag.

„Þetta mál er hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Við teljum ekki að það sé ástæða til þess að óttast á þessum tímapunkti. Að þessu sögðu, ef við horfum á Evrópu og Norðurlöndin, þá er hættan talin stafa af þessum einmana úlfum sem geta verið hættulegir.

Við getum ekki hindrað allt, það getur enginn gert það. En við erum vel vakandi, við erum undirbúin, við erum að styrkja okkur og við njótum skilnings ráðherra og ráðuneytis í því efni.“

„Við erum vel vakandi, við erum undirbúin, við erum að …
„Við erum vel vakandi, við erum undirbúin, við erum að styrkja okkur og við njótum skilnings ráðherra og ráðuneytis í því efni.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölga menntuðu lögreglufólki

Varðandi öryggistilfinningu lögreglumanna segir Sigríður að mikilvægt sé að fjölga menntuðu lögreglufólki. Nýleg könnun bendi til þess að skortur á menntuðum lögreglumönnum sé talinn ein af þeim ógnum þegar kemur að öryggistilfinningu þeirra í starfi.

„Við höfum bent á það í langan tíma að það sé brýnt að það verði bætt. Þetta fór inn í stjórnarsáttmálann og það er núna búið að setja fé í að tvöfalda menntaða lögreglumenn,“ segir hún.

Sjá megi að sú vinna hafi skilað árangri þar sem 85 nemar hafi hafið nám í ár.

„Það er það mesta sem hefur verið gert í einu. Þannig það er verið að fjölga lögreglufólki.“

mbl.is