Málið tengist skotárás fyrr á árinu

Annar mannanna sem handtekinn var í gær vegna gruns um …
Annar mannanna sem handtekinn var í gær vegna gruns um skipulagningu á hryðjuverkaárás er talinn hafa framleitt þrívíddarprentaða byssu sem notuð var í skotárás í miðbæ Reykjavík fyrr á árinu þar sem maður var skotinn í brjóstið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Annar mannanna sem handtekinn var í gær vegna gruns um skipulagningu á hryðjuverkum hér á landi var einnig handtekinn fyrir tíu dögum síðan vegna gruns um að framleiða vopn.

Sami maðurinn er talinn hafa framleitt þrívíddarprentaða byssu sem notuð var í skotárás í miðbæ Reykjavík fyrr á árinu þar sem maður var skotinn í brjóstið. 

Þetta herma heimildir fréttastofu Rúv.

Þar segir einnig að maðurinn hafi verið látinn sæta einangrun í eina viku en var látinn laus 20. september, einum degi áður en hann var aftur handtekinn vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka. 

„Framhald af öðru máli“

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, sagði í samtali við Rúv að málið væri framhald af öðru máli sem tengdist framleiðslu á vopnum.

Mennirnir sem handteknir voru í fyrradag í tengslum við skipulagningu á hryðjuverkaárás, bæði í iðnaðarhúsnæði í Mosfellsbæ og í Holtasmára í Kópavogi, höfðu í fórum sínum íhluti í vopn prentaða með þrívíddarprentara.

Sigríður Björk sagði einnig að verið væri að skoða öll gögn í málinu meðal annars tæki, síma, og tölvur.

mbl.is