Nauðgunardómur staðfestur yfir knattspyrnumanni

Andrés Manga Escobar í leik með Leikni.
Andrés Manga Escobar í leik með Leikni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Landsréttur hefur staðfest tveggja og hálfs árs fangelsisdóm yfir Andrés Manga Escob­ar, kól­umb­íska knatt­spyrnumanninum sem lék með Leikni úr Reykja­vík í úr­vals­deild karla á síðasta ári.

Er hann fundinn sekur um að hafa brotið gróflega gegn kynfrelsi konunnar, en hann hafði samræði og önnur kynferðismök við konuna, þar sem hún lá illa áttuð og gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar.

Fyrr á þessu ári veitti Escobar sjónvarpsþætti í Kólumbíu viðtal þar sem hann óskaði eftir aðstoð og sagði ekki sanngjarnt hvernig væri komið fram við hann. Á þeim tíma var hann í farbanni en ekki í fangelsi. 

Meðal gagna í málinu voru Snapchat skilaboð sem konan sendi vinum sínum þar sem hún sagði að einhver maður hafi dregið sig með sér heim og hún hafi verið of full til að gefa samþykki fyrir einu eða neinu. Leitaði hún jafnframt upplýsinga hjá vinum sínum um kvöldið.

Þá var notast við upptökur úr eftirlitsmyndavélum úr miðbænum, en þar má meðal annars sjá konuna reikandi. Sýnir eitt myndskeiðið þegar karl kemur og tekur undir handlegg hennar og gengur áfram með henni. Kona kom hins vegar hlaupandi og ýtir manninum í burtu og gengur með henni aðeins áfram áður en brotaþolinn kveður hina konuna og gengur áfram reikul í spori. Stuttu síðar er annar karlmaður búinn að taka undir handlegg hennar og athugar ástand hennar og bendir öðrum sem eru með honum á það. Mennirnir fara svo aðra átt en virðast ræða ástand konunnar og er konan mjög reikul í spori og hægfara þar.

Tveimur mínútum síðar sést konan standa með Escobar fyrir utan veitingastað. Gengur hann fyrst á undan henni en svo samhliða. Tekur hann síðar undir handlegg hennar og gengur með henni. Sést meðal annars hvernig konan virðist eiga erfitt með gang og að hún detti upp að manninum og síðar hvernig höfuð hennar hnígur fram og hún virðist óstöðug.

Tuttugu mínútum síðar sjást þau bæði á öryggismyndavél í stigagangi þar sem maðurinn leiðir hana inn í lyftu. Tæplega klukkustund síðar kemur konan ein út.

Deilt var um ölvunarstig konunnar fyrir dómi, en Landsréttur segir að ótvírætt sé að niðurstöður á blóðprufum sýni að hún hafi verið verulega ölvuð. Þá liggi fyrir vitnisburður um mikla ölvun hennar, meðal annars konunnar sem hitti hana fyrr um kvöldið og sagðist engu sambandi hafa náð við hana. Þá segir í dóminum að upptökur sýni versnandi ástand konunnar eftir því sem leið á kvöldið og mikla ölvun. Segir Landsréttur að ekki verði annað ráðið af upptökum en að Escobar leiði hana í reynd áfram og að hún reiki fram og til baka og eigi erfitt með gang.

Auk dómsins þarf Escobar að greiða konunni 1,8 milljónir í miskabætur og 3 milljónir í málskostnað.

mbl.is