Þarf yfirvegaða umræðu um öryggisgæslu á Alþingi

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir í samtali við mbl.is að engar sérstakar ákvarðanir hafi verið teknar um frekari vopnaburð lögreglu eða öryggisgæslu á Alþingi eða á öðrum stofnunum en „það verður farið yfir öll þessi mál í framhaldi af þessu [hryðjuverkaógninni í gær].“

„Við þurfum að taka það til yfirvegaðar umræðu og átta okkur á þessum veruleika sem er að einhverju leyti nýr fyrir okkur og bregðast við því með viðeigandi hætti,“ segir Jón.

Áskoranir í „nýjum veruleika“ eru meðal annars þær sem snúa að þrívíddarprentuðum íhlutum í vopn og innflutningi á pörtum af vopnum. 

Dr. Paolo Gargiu­lo, pró­fess­or í heil­brigðis­verk­fræði við Há­skól­ann í Reykja­vík, sagði í sam­tali við mbl.is í gær að jafn auðvelt væri að prenta byss­ur með þrívídd­ar­prent­ara og að setja upp iP­ho­ne. 

Er einhver raunhæf leið til þess að fylgjast með þrívíddarprentuðum íhlutum í vopn eða innflutta hluti í vopn sem eru kannski ekki einir og sér ólöglegir?

„Það er augljóst að þetta flækir mjög alla möguleika á eftirliti, það blasir við. Það er eitthvað sem þarf að skoða og sjá til hvaða ráðstafana við getum gripið. Við erum ekki eyland í þessu samhengi, þessi ógn steðjar að öllum okkar samstarfs- og nágrannalöndum,“ segir Jón.

mbl.is