Töldu árás yfirvofandi

Blaðamannafundur ríkislögreglustjóra vegna handtöku á fjórum mönnum í gær.
Blaðamannafundur ríkislögreglustjóra vegna handtöku á fjórum mönnum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skipulagðar árásir mannanna, sem sérsveit ríkislögreglustjóra handtók í umfangsmiklum aðgerðum á miðvikudag, voru taldar yfirvofandi á næstu dögum. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.

Lögreglan mun hafa sett vörð um Alþingishúsið svo lítið bar á, en einnig er rætt um að mennirnir hafi sýnt árshátíð lögreglumanna, sem halda á í næstu viku, sérstakan áhuga.

Mennirnir, fjórir íslenskir karlmenn á þrítugsaldri ,voru handteknir í Holtasmára í Kópavogi og á iðnaðarsvæði í Mosfellsbæ. Þeir eru grunaðir um undirbúning hryðjuverka, ólöglegan innflutning og framleiðslu skotvopna, íhluta í skotvopn og skotfæra. Tveir mannanna, báðir 28 ára að aldri, voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Voðaverki afstýrt og breyttur veruleiki

„Ég held að það sé mikilvægt að við hlustum á lögregluna, og erum þakklát fyrir það að það hér hafi tekist að afstýra einhverju voðaverki. En um leið þurfum við auðvitað að gera okkur grein fyrir þessum breytta veruleika sem við búum við,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.

„Það kom fram að þeir teldu samfélagið öruggt, og við þurfum bara að hlusta á það sem þeir sögðu. Þeim tókst að eiga við þetta og leysa þetta. Við skulum hlusta á lögregluna, og treysta því að hér getum við áfram verið róleg. En þetta er vissulega mjög alvarleg aðvörun og við henni verður brugðist af fullum þunga.“

Sorgardagur og áhyggjur lögreglu

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, segir þó nokkra úr röðum lögreglu hafi lýst áhyggjum vegna þeirrar hryðjuverkaógnar sem tókst að afstýra.

„Þetta er sorgardagur, finnst mér. Að það sé komin upp hryðjuverkaógn á Íslandi. Menn hafi ætlað sér að beita vopnum gegn almennum borgurum, lögreglu eða stofnunum ríkisins. Ég verð að segja að ég var bara frekar sleginn yfir þessu.“

Iðnaðarmenn sem hafa verið að störfum nærri þeim hluta iðnaðarhúsnæðis þar sem mennirnir voru handteknir af lögreglu í Mosfellsbæ segjast ekki hafa orðið varir við neina glæpastarfsemi eða skuggalega háttsemi.

Um er að ræða iðnaðarhúsnæði sem stendur við götuna Bugðufljót. Mennirnir segja að viðbúnaður lögreglu á svæðinu á miðvikudag hafi verið gífurlegur. Menn sem starfa í bílaverkstæði á móti segjast heldur aldrei hafa orðið varir við neitt annarlegt á svæðinu.

Allt að fimmtíu lögreglumenn komu að aðgerðum í málinu á einhverjum tímapunkti. Ekki er talið útilokað að fleiri einstaklingar séu viðriðnir málið.

Varðar allt að ævilöngu fangelsi

Í fyrstu málsgrein 100. gr. a. almennra hegningarlaga segir að fyrir hryðjuverk skuli refsa með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar.

Þau brot sem upp eru talin í fyrstu málsgrein eru meðal annars manndráp, líkamsárás, frelsissvipting, flugrán, brenna, röskun á umferðaröryggi, eða að einstaklingur trufli rekstur almennra samgöngutækja eða valdi stórfelldum eignaspjöllum, og þessi brot séu framin á þann hátt að mannslífum sé stefnt í hættu eða valdi miklu fjárhagslegu tjóni.

Segir í annarri málsgrein 100. gr. a. að sömu refsingu skuli sá sæta sem í sama tilgangi hótar að fremja ofangreind brot.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: