Vonast eftir skilningi á vaxandi ógn

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að frumvarp um afbrotavarnir eða forvirkar rannsóknarheimildir muni ná til ýmiss konar glæpa, ekki eingöngu þeirra sem snúa að þjóðaröryggi.

Jón sagði í samtali við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar í morgun að frumvarpið sé á lokametrunum og að hann muni leggja það fram á þinginu mjög fljótlega.

Hann vonast til þess að skilningur sé á því að á Íslandi er glímt við vaxandi ógn í skipulagðri glæpastarfsemi óháð fréttum gærdagsins um ætluð hryðjuverk.

„Það er eitthvað sem við þurfum að stíga mjög fast til jarðar í og bregðast við,“ bætir Jón við.

Horfa á frumvarpið í stóra samhenginu 

Hann segir að í undirbúningi að frumvarpinu hafi verið horft til stóra samhengisins, ekki sérstaklega til glæpa sem varðar þjóðaröryggi.

„Þetta er auðvitað svolítið nýr veruleiki sem við horfum fram í núna í þessu nýjasta dæmi en vinnan okkar hefur öll miðast að því að styrkja stöðu okkar á þeim vettvangi. Það tengist gjarnan eiturlyfjainnflutningi, framleiðslu og slíku en þetta snýst fyrst og fremst um fjármagn. Menn eru í þessu til að græða peninga,“ sagði Jón.

„Það er það sem við erum ekki síst á eftir og það þarf samstarf margra aðila til þess að stilla saman strengi og það þarf samstarf við erlenda aðila. Þetta er óhjákvæmilegt öðruvísi en við þurfum að geta verið í fullu samstarfi við erlend lögregluyfirvöld til þess að spyrna fast við fótum og uppræta slík mál. Við erum að horfa á þetta í þessu stóra samhengi.“

Núverandi fyrirkomulag sé hamlandi

„Það er mikilvægt að við séum að stilla okkur saman við þessi embætti í umhverfinu þannig að þetta sé ekki eins og það er í dag, hamlandi bæði á það að geta tekið við upplýsingum og nýtt upplýsingar sem okkur berast frá erlendum lögregluembættum, og eins veitt upplýsingar til baka. Þannig er það í dag að það er mjög takmarkandi hvernig staðan er í þessum málum hjá okkur,“ bætti Jón við.

Hvað varðar heimildir, getur fólk átt von á hlerunum án þess að vera með stöðu sakbornings?

„Það eru atriði sem við erum að líta til.“

Lagaheimildir þrengri en víðast hvar í Evrópu

Jón segir að vinna hafi staðið yfir í ráðuneytinu frá því í byrjun þessa árs þar sem annars vegar er unnið að því að skoða skipulag lögreglu og ráðstöfun fjármagns, og hins vegar samstarf á milli lögregluembætta.

„Ég hef tillögur á borðinu frá lögreglustjórum landsins og ríkislögreglustjóra um ákveðnar breytingar sem geta gert okkar kerfi skilvirkara og nýtt okkar fjármagn og mannafla betur,“ sagði Jón og bætti við: „Við munum fara í ákveðnar innri breytingar hjá okkur og það geta mögulega fylgt því einhverjar lagabreytingar í framhaldi.

Á sama tíma er verið að vinna með þetta frumvarp sem fjallar um afbrotavarnir sem eru þessar fyrirbyggjandi aðgerðir sem lögregla getur gripið til. Okkar lagalegu heimildir þar eru miklu þrengri en til að mynda gerist á Norðurlöndunum og reyndar hjá öllum lögregluembættum um Evrópu,“ sagði hann.

„Með tillögunum erum við að styrkja verulega starfsemi lögreglu. Við höfum verið að fjölga lögreglunemum umtalsvert og við erum að horfa þá til styrkingar að því leyti en ég er líka að horfa til öryggis lögreglumanna sem er mér mjög ofarlega í huga þessu sambandi, það er að segja sá nýi veruleiki sem blasir við okkar lögreglumönnum sem líka eiga fjölskyldur sem vilja fá þá heila heim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert