Búa sig undir óveður í ríflega 20 stiga hita

Frá blíðviðrisdegi á Seyðisfirði.
Frá blíðviðrisdegi á Seyðisfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er fremur sérstök staða, það er búið að vera mjög hlýtt á Austurlandi í dag en svo erum við að búa okkur undir mjög slæmt veður á morgun,“ segir Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn á Austurlandi,  spurður út í stöðuna vega veðurbreytinganna framundan. 

Rétt fyrir klukkan níu í kvöld fór hiti á Eskifirði upp í 22,7 gráður. Á Dalatanga fór hiti upp fyrir 24 gráður klukkan átta, og á sama tíma var blankalogn á Neskaupsstað ásamt því að hiti sló 21,7 gráðu. 

Hættustigi hefur verið lýst yfir á Austurlandi fyrir morgundaginn og mun almannavarnarnefnd Austurlands koma saman í fyrramálið til þess að fara yfir stöðuna. 

Kristján segir alla í viðbragðsstöðu og lagt hafi verið kapp á að tryggja upplýsingaflæði svo fólk sé meðvitað um komandi lægð.

Fólk hefur verið hvatt til þess að ganga frá lausamunum á borð við útihúsgögn og trampólín, en kveðjustundin í kvöld hefur verið ljúfsár fyrir marga sem nutu kvöldkyrrðarinnar samkvæmt frásögnum að austan.

mbl.is