Allt að tíu metrar af þakplötum fuku af byggingum

Slökkviðið fór í fjögur útköll vegna veðurs en björgunarsveitir sáu …
Slökkviðið fór í fjögur útköll vegna veðurs en björgunarsveitir sáu um lungann af útköllum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu fór í fjögur útköll í nótt vegna veðurs, en varðstjóri hjá slökkviliðinu segir í samtali við mbl.is að björgunarsveitirnar hafi séð um lungann af útköllunum sem voru í öllum hverfum höfuðborgarinnar.

Flest voru útköllin vegna fjúkandi hluta; girðinga, trampólína, auglýsingaskilta, fellihýsa og þakplatna. Þá þurfti að huga að byggingarsvæðum.

Að sögn varðstjóra fóru allt að tíu metrar af þakplötum af einni byggingu og því um töluvert eignatjón að ræða. Ekki hafa verið tilkynnt slys á fólki vegna veðurs.

Varðstjóri segir veðrið sem slíkt ekki hafa verið neitt sérstaklega slæmt, hins vegar hafi vindáttin verið önnur en við eigum að venjast, sem hafi valdið því að ýmsir hlutir fóru af stað þótt veðrið hafi ekki verið verra en raun bar vitni.

mbl.is