Aflýsa óvissustigi vegna skjálftahrinu við Grímsey

Upptök skjálftanna voru við Grímsey.
Upptök skjálftanna voru við Grímsey. mbl.is/Sigurður Bogi

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra hefur aflýst óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar úti fyrir Norðurlandi, nálægt Grímsey, sem hófst 8. september. Stærsti skjálfti hrinunnar var 4,9 að stærð, en sex skjálftar mældust yfir 4 að stærð á meðan hrinan gekk yfir.

Alls mældust 13.156 skjálftar í sjálfvirku jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar. Stærstu skjálftarnir komu í upphafi hrinunnar og fóru þeir svo minnkandi þar til hrinan dó út nú um helgina.

Þrátt fyrir að óvissustigi sé aflýst, þá má alltaf búast við jarðskjálftum á þessu svæði og er fólk áfram hvatt til þess að tryggja innanstokksmuni sem kunni að falla í jarðskjálftum.

mbl.is