Ekið á 10 ára stúlku í Mosfellsbæ

Tilkynnt var um umferðarslys í Mosfellsbæ skömmu fyrir klukkan átta í gærkvöldi en bifreið var ekið á 10 ára stúlku sem var á gangbraut að fara yfir akbraut.

Segir í dagbók lögreglu að móðir stúlkunnar hafi farið með hana á bráðadeild þar sem slysið var ekki tilkynnt til lögreglu eða sjúkraflutninga. Þá kemur fram að vitni hafi verið að óhappinu og sé það í rannsókn. Engir áverkar eru skráðir.

Ók á ofsahraða og stoppaði ekki strax

Skömmu eftir klukkan eitt í nótt var bifreið stöðvuð eftir hraðamælingu en henni var ekið á 164 km/klst á Kringlumýrarbraut þar sem er 80 km/klst hámarkshraði. Þá kemur fram að ökumaðurinn hafi ekki stöðvað bílinn strax við merkjagjöf lögreglu og var kominn í Garðabæ þegar hann loks stoppaði.

Ökumaður bifreiðarinnar er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, ítrekaðan akstur án gildra ökuréttinda og skjalafals. Þá var bifreiðin auk þess með röng skráningarnúmer, sem talið er að séu stolin, og ótryggð. Bifreiðin var flutt af vettvangi með dráttarbifreið.

Innbrot á veitingastað

Tilkynnt var um innbrot á veitingastað í miðbænum en þar var brotist inn og stolið sjóðsvélum. Þá var einnig í hverfi 101 tilkynnt um mann í annarlegu ástandi þar sem hann var kominn í kjallara hótels. Sá var handtekinn og vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert