„Fiskvinnslukör fuku eins og sykurpúðar út um allan fjörð“

Tré rifnuðu upp með rótum í ofsaveðri á Seyðisfirði í …
Tré rifnuðu upp með rótum í ofsaveðri á Seyðisfirði í gær. Ljósmynd/ Helgi Haraldsson

„Það er nú ansi hvasst enn þá. Það fór alveg í 40 metra á sekúndu í morgun. Það er þó lengra á milli hviðanna,“ segir Aðalheiður Borgþórsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði, í samtali við mbl.is.

Rafmagnslaust varð víða á Austurlandi vegna ofsaveðursins í gær. Rafmagnsleysið stóð yfir í um það bil tvo klukkutíma að sögn Aðalheiðar.

„Maður beið bara eftir því að það kæmi aftur á. Húsið hristist duglega og tré rifnuðu upp með rótum í garðinum hjá okkur. Það fór líka eitt hús hérna mjög illa en það var líka illa farið eftir skriðu.“

„Það eru víða rúður brotnar. Þakplötur hafa fokið, bæði af húsum og líka á nýbyggingarsvæði hérna. Allar ruslatunnur eru úti um hvippinn og hvappinn. Bátar slitnuðu frá og fiskvinnslukör fuku hérna eins og sykurpúðar út um allan fjörð.“

Mikið um brotin tré

Aðalheiður segir að vinkona hennar hafi sagt henni frá því í morgun að rúður hafi brotnað heima hjá henni og lítið hús, sem hafði farið af stað, hefði næstum farið inn um gluggana.

Spurð hvort fólk væri farið af stað út að taka til, svarar Aðalheiður neitandi. Fólk bíði enn eftir því að storminn lægi.

„Ég held að það verði ekki farið af stað fyrr en á morgun. Það er auðvitað búið að negla fyrir glugga sem brotnuðu og reynt að bjarga því sem bjargað verður. Það verður nóg að taka til og mikið um brotin tré sem hafa brotnað í spað eða rifnað upp með rótum.“

mbl.is