Gular og appelsínugular enn í gildi

Viðvaranir eru enn í gildi í dag.
Viðvaranir eru enn í gildi í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Gular og appelsínugular viðvaranir eru enn í gildi í dag þó að versta veðrið sé afstaðið. Enn má búast við stormum, hvassviðri og roki.

Appelsínugul viðvörun er í gildi klukkan 15.00 í dag á bæði Austfjörðum og Suðausturlandi. Þar er spáð norðvestan 20-28 m/s en hvassara á stöku stað. Þá geta staðbundnar vindhviður náð yfir 40 m/s.

Segir á vefsíðu Veðurstofu Íslands að fólki sé ráðlagt að sýna aðgát og að ekkert ferðaveður sé á þessum stöðum.

Gular viðvaranir eru í gildi á Norðurlandi eystra, á Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og Suðausturlandi og á þessum svæðum er varasamt ferðaveður og þá sérstaklega fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi. Vindhviður geta farið yfir 30 m/s.

Á Norðurlandi eystra gildir gula viðvörunin til klukkan 13.00 en þar er spáð norðvestan 13-23 m/s. Á Austurlandi að Glettingi gildir hún til klukkan 15.00 en þar er spáð 18-25 m/s.

Á Austfjörðum og Suðausturlandi gildir gul viðvörun frá klukkan 15.00 til 23.00 í kvöld en þar er spáð 18-23 m/s á þessum tíma.

Veður á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert