Ísland fimmta besta landið samkvæmt SPI

Ísland fellur um eitt sæti og er í fimmta sæti af 169 þjóðum í mælingu fyrirtækisins Social Progress Imperative á vísitölu félagslegra framfara, Social Progress Index (SPI). Niðurstöðurnar voru kynntar í dag. 

Ísland þykir leiðandi á ýmsum sviðum þegar vísitala félagslegra framfara, SPI, er reiknuð út. Þar á meðal eru þættir er lúta að aðgengi að vatni, matvælum og hreinlæti. Hér eru lífslíkur ungbarna mestar og gott aðgengi að menntun. 

Eins og síðustu ár eru það Norðmenn sem tróna á toppi SPI-listans. Á eftir þeim koma Danir, þá Finnar og Svisslendingar eru í fjórða sæti á undan Íslendingum. 

Í samantekt Social Progress Imperative segir að þó niðurstöður þessa árs sýni að þjóðir séu heilt yfir að bæta sig þegar kemur að mælingu á velmegun og lífsgæðum. Engu að síður hafi hægt á framförum. Fari svo sem horfi muni vísitalan í fyrsta sinn lækka á næsta ári.

Athygli vekur að þrjár G7-þjóðir hafa sýnt afturför síðasta áratuginn. Þær eru Bandaríkin, Bretland og Kanada. Bandaríkin eru í 25. sæti á heimsvísu í mælingunni í ár.

Frammistaða Íslands

Gulur punktur merkir að landið standist settar kröfur, blái liturinn …
Gulur punktur merkir að landið standist settar kröfur, blái liturinn er til marks um að frammistaða fari umfram væntingar og sá rauði er til marks um hið gagnstæða. Ljósmynd/SPI2022


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert