Kirkjan fyrri til en skólastjórinn er sammála

Laugarnesskóli í Reykjavík.
Laugarnesskóli í Reykjavík. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Sigríður Heiða Bragadóttir, skólastjóri Laugarnesskóla í Reykjavík, telur það skynsamlegt skref hjá Laugarneskirkju að afþakka skipulagðar heimsóknir skólabarna á aðventunni. 

Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur Laugarneskirkju, tilkynnti þessa ákvörðun fyrir helgi. Byggðist hún á því að andstöðu hefði gætt við umræddar heimsóknir á seinni árum, sem hefði valdið ágreiningi. Kirkjan vilji hvorki taka þátt í slíkum ágreiningi né valda því að sum börn séu útilokuð frá hluta skólastarfsins. 

Sigríður Heiða tekur undir þessi orð. Þá bendir hún á að með þessu sé ekki verið að banna börnum að mæta í kirkju, enda séu þau alltaf velkomin þangað og sérstök messa fyrir börn verði jafnvel haldin á aðventunni. 

Ætluðu að hætta við heimsóknirnar

Ákvörðunin kom ekki á óvart þar sem skólaráð hafði verið í samtali við kirkjuna um málefnið. Ef kirkjan hefði ekki verið fyrri til, hefði skólinn líklega gefið frá sér tilkynningu um að kirkjan yrði ekki heimsótt á aðventunni. 

„Við ræddum þetta í skólaráði í vor og svo ætluðum við að funda með kennurum skólans, en svo kom þessi tilkynning bara á undan.“

Ekkert sérstakt mun koma í staðinn fyrir kirkjuheimsóknirnar að sögn Sigríðar, en kærleikurinn verður áfram helsta þemað á aðventunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert