Mesta tjónið á Reyðarfirði

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.
Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings. Ljósmynd/Aðsend

„Eins og hefur komið fram á fundum með Almannavörnum í gær og í morgun þá er mesta tjónið á Reyðarfirði. Það er býsna umfangsmikið, bæði í íbúðar- og atvinnuhúsnæði.“

Þetta segir Björn Ingimarsson sveitarstjóri Múlaþings, um tjónið sem hefur orðið á Austurlandi vegna ofsaveðurs í gær. Hann segir enn mjög hvasst í fjörðunum, sérstaklega á Seyðisfirði og í Djúpavogi.

„Það er enn þá það mikil veðurhæð að það er ekkert hægt að ráðast í hreinsanir. Væntanlega verður það ekki gert fyrr en í fyrramálið.“

Ekki stórkostlegt tjón

Björn er staddur fyrir sunnan eins og er en hefur verið á fundum meira og minna allan gærdaginn vegna ástandsins.

Angróhúsið á Seyðisfirði hrundi meðal annars í rokinu en Björn segir að til hafi staðið að flytja húsið og endurbyggja það. Þar fyrir utan segir hann að hann hafi ekki orðið var við mikið tjón.

„Það hafa farið rúður í bílum og þess háttar og einhverjar þakplötur en ekki stórkostlegt tjón annað, en auðvitað kemur þetta betur í ljós eftir daginn í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert