Óþolandi að svarið sé að fella niður skólahald

Borgun var áður til húsa í Ármúla 30 þar sem …
Borgun var áður til húsa í Ármúla 30 þar sem nemendur Hagaskóla sækja nú kennslu. mbl.is/Árni Sæberg

Formaður foreldrafélags Hagaskóla segir það algjörlega óþolandi að svarið sé alltaf að fella niður kennslu ef eitthvað kemur upp á í tengslum við skólastarfið, líkt og raunin var í Hagaskóla í dag.

Kennsla var felld niður í dag vegna frétta af því að brunavörnum væri ábótavant í Ármúla 30 þar sem nemendur í 8. og 9. bekk Hagaskóla hafa sótt kennslu vegna endurbóta á húsnæði skólans.

„Það er auðvitað algjörlega óþolandi að það sé alltaf svarið að fella niður kennslu. Maður hefði haldið að það væri hægt, jafnvel þótt fólk vilji ekki vera í þessu húsnæði, þá finnst manni það bera vott um skort á hugmyndaflugi og að hugsa í lausnum að það eina sem fólki detti í hug sé að fella niður skólastarf,“ segir Vífill Harðarson, formaður foreldrafélags Hagaskóla, í samtali við mbl.is.

Bitnar á þeim sem eru viðkvæmastir 

Forsaga málsins er sú að eldvarnaeftirlit slökkviliðsins fékk ábendingu um húsnæðið í Ármúla 30, sem Reykjavíkurborg leigir undir skólastarf Hagaskóla, fyrr í þessum mánuði. Í kjölfarið var farið í eldvarnaskoðun og í ljós kom að kröfur um eldvarnir voru ekki uppfylltar. Eigendum hússins hefur verið gefinn frestur til 12. október til að gera úrbætur, ella verði húsnæðinu lokað. Kveikur greindi fyrst frá málinu.

Skólastjórnendur hafa boðað til fundar í dag með foreldrafélaginu, skólaráði, borgaryfirvöldum og slökkviliði, til að fara fara yfir stöðuna.

Vífill segir það skýringuna sem var gefin á því að skólahald var fellt niður. En foreldrar hafi einnig áhyggjur af þessari miklu röskun á skólastarfi.

„Áhyggjur foreldra í grunninn lúta að því að þetta ástand allt saman, frá því síðastliðinn vetur, hefur leitt af sér verulegar raskanir á skólastarfi og eins og oft bitnar það oft á þeim sem eru viðkvæmastir fyrir og mega síst við því. Þannig að þetta er algjörlega ömurleg staða.“

Foreldrum gróflega misboðið

Foreldrum sé gróflega misboðið vegna þeirrar stöðu sem komin er upp.

„Frá því að þetta ástand hófst síðastliðinn vetur hafa foreldrar verið að gera alls konar athugasemdir við það hvernig skólastarfi hefur verið háttað og raskanir á því. Auðvitað hefur fólk að einhverju leyti þolinmæði fyrir því, eða hafði í upphafi, þegar það kemur upp erfið staða og því að það þurfi að grípa til einhverra ráðstafana sem ekki eru fullkomnar.

En það hefur verið afskaplega illa staðið að þessu af hálfu skólayfirvalda og keyrir um þverbak þegar borgin sækir ekki um leyfi hjá sínum byggingarfulltrúa,“ segir Vífill.

„Þetta hlýtur að vekja spurningar um hvort þessu stærsta sveitarfélagi landsins er yfirhöfuð treystandi fyrir skólahaldi,“ bætir hann við.

Endurbætur standa yfir á Hagaskóla, en þar kom upp mygla.
Endurbætur standa yfir á Hagaskóla, en þar kom upp mygla. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Umhugað um gott samstarf

Spjótin beinist þó ekki að skólastjórnendum sjálfum í þessu máli. „Hluti af þessu hefur verið að skólastjórnendur hafa fengið í fangið alls konar verkefni sem maður hefði haldið að þær ættu ekki að sinna, heldur hefði maður haldið að þær ættu aðallega að sinna menntun og velferð barnanna. Þessi gagnrýni beinist fyrst og fremst að borgaryfirvöldum.“

Í ályktun sem stjórn foreldrafélagsins sendi frá sér í gær kemur fram að skólayfirvöld og aðrir sem að málinu koma fyrir hönd Reykjavíkurborgar hafi ítrekað verið spurð hvort brunavarnir séu í lagi í húsnæði skólans. Ávallt hafi verið staðhæft að svo sé. Vífill segir það síðast hafa verið gert á fundi fyrir tveimur vikum.

„Ég held að öllum foreldrum sé umhugað um að eiga gott samstarf við skólann og skólayfirvöld hjá borginni um það hvernig skólahaldi verður best háttað við þessar aðstæður, en ef maður getur ekki treyst því að fá réttar upplýsingar þá er erfitt að treysta þeim sem maður er í samskiptum við.“

Gera kröfu um tafarlausar aðgerðir 

Vífill segir foreldra gera kröfu um að ráðist verði í trúverðugar aðgerðir til að tryggja skólastarf án truflana í Hagaskóla. Stjórn foreldrafélagsins skorar á Reykjavíkurborg að ráðast tafarlaust í aðgerðir vegna þessa.

„Þannig gætu borgaryfirvöld reynt að leggja grunn að því að endurvinna traust foreldra og sýna fram á að þessu stærsta sveitarfélagi landsins sé treystandi fyrir því að standa fyrir skólastarfi,“ segir í ályktun stjórnarinnar.

mbl.is