Sá grunaði neitar öllum ásökunum

Maðurinn var handtekinn í aðgerðum sérsveitarinnar í síðustu viku.
Maðurinn var handtekinn í aðgerðum sérsveitarinnar í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að það hafi gengið bara mjög friðsamlega fyrir sig. Það var mikill viðbúnaður en honum var ekkert skellt í jörðina eða neitt í þá áttina,“ segir Ómar Örn Bjarnþórsson, lögmaður eins mannsins sem var handtekinn í aðgerðum sérsveitarinnar við Holtasmára á miðvikudaginn. Maðurinn er grunaður um undirbúning hryðjuverks gegn lögreglunni eða Alþingi en að sögn Ómars er skjólstæðingur hans samvinnuþýður við rannsókn málsins og yfirheyrslum lögreglu. Þá hafi maðurinn veitt lögreglu aðgangsorð að síma sínum, tölvu og öllum þeim gögnum sem lögreglan hefur lagt hald á.

Ómar tekur fram að skjólstæðingur sinn neiti allri sök og að hann játi ekki að hafa verið að skipuleggja hryðjuverk eða fjöldamorð.

Hann tekur að auki fram að hann kannist ekki við það að maðurinn sé í tengslum við erlenda öfgahópa. Sá grunaði þvertekur einnig fyrir að hafa komið að skotárás í miðbæ Reykjavíkur fyrr á árinu.

Ómar staðfestir þá að í yfirheyrslu lögreglu hafi fyrri afskipti lögreglu og sérsveitarinnar af manninum verið rædd en sérsveitin hafði afskipti af manninum árið 2009. Í því máli hafði verið tilkynnt um vopnaðan mann fyrir utan Lyfju í Lágmúla í Reykjavík sem reyndist vera tólf ára drengur með leikfangabyssu.

„Þetta var rætt en hann var ekkert spurður hvort hann væri reiður út af þessu,“ segir Ómar um málið. 

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert