Stefnuleysi og húsnæðisvandi í flóttafólksmálum

Börn eru um helmingur flóttafólks í Garðabæ sem stendur.
Börn eru um helmingur flóttafólks í Garðabæ sem stendur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir að til þess að geta sinnt flóttafólki vel eins og vilji er til þurfi að vera skýr stefna ríkisins í málefnum flóttafólks „en ekki að bregðast við eftir á þegar allt er komið yfir þolmörk“.

Hún segir að í Hafnarfirði hafi verið gerður samningur um samræmda móttöku flóttamanna sem gerði ráð fyrir tveimur starfsmönnum í félagslega kerfinu til að sinna flóttamannamálum. Á liðnum misserum hafi þurft að fjölga þeim og eru þeir nú orðnir 16 talsins.

„Við þurfum að fá fjármagn til þess að standa undir þeim kostnaði sem sveitarfélagið hefur orðið fyrir við þetta aukna álag á stofnanirnar og við erum vongóð um að það fáist. Þetta er ekki bara spurning um fjármagn. Starfsmenn, stoðdeildir og þjónustuver og annað slíkt ræður alls ekki við þetta, og þetta gengur ekki lengur,“ segir Rósa.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir: „Ef markmiðið er, sem hlýtur að vera, að halda vel utan um þetta fólk og tryggja að það eigi góða möguleika á að aðlagast samfélaginu þá þarf að gera þetta vel. Við höfum áhyggjur af því eins og aðrir að ef þetta verður mjög umfangsmikið geti þetta mjög fljótt orðið mjög krefjandi mál fyrir okkur til að halda utan um.“

Almar segir einnig að næstum helmingur flóttafólks í Garðabæ sé börn og í því felist mjög umfangsmikil og sértæk skólaþjónusta sem ríkið sé ekki að koma nægilega vel til móts við.

Ekki hefur verið ákveðið hvort Garðabær muni gera samning við ríkið um samræmda móttöku flóttafólks.

„Vandinn er aðstæðurnar á húsnæðismarkaðnum sem eru mjög þungar á öllu höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögum getur reynst svolítið mikill biti að þurfa að stíga afgerandi skref í þessu.“

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert