„Það má ekkert lengur“

Úr auglýsingu VIRK sem frumsýnd var á föstudagskvöldið.
Úr auglýsingu VIRK sem frumsýnd var á föstudagskvöldið. Skjáskot/VIRK

„Það má ekkert lengur“, auglýsing VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, var gerð til að vekja athygli á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Þetta segir Ingibjörg Loftsdóttir, sviðsstjóri forvarnasviðs VIRK, í samtali við mbl.is.

„VIRK er með lagalegt hlutverk hvað varðar það að vera með forvarnaraðgerðir til að sporna við brottfalli af vinnumarkaði af hvers kyns toga. Hingað til höfum við aðallega verið að horfa til álagstengdra vandamála, mikið kulnun og streituvandamál en ekki síst hvað viðkemur almennri vellíðan starfsfólks í starfi,“ segir Ingibjörg.

Hún segir að kynferðisleg áreitni sé vandamál á íslenskum vinnumarkaði.

„Við fengum ákall úr grasrót VIRK en það eru stéttarfélögin sem standa meðal annars að baki okkur. Þau báðu okkur að skoða hvort við gætum brugðist eitthvað við þessu. Þetta er búið að vera langur farvegur, þetta er viðkvæmt málefni og það þarf virkilega að reyna að vanda sig.“

Ingibjörg Loftsdóttir, sviðsstjóri forvarnasviðs VIRK.
Ingibjörg Loftsdóttir, sviðsstjóri forvarnasviðs VIRK. Ljósmynd/Aðsend

Yfirgnæfandi jákvæð viðbrögð

Auglýsingin var því gerð til að vekja athygli á málefninu. Hún var frumsýnd á föstudagskvöldið á RÚV í auglýsingahléi á undan Vikunni með Gísla Marteini.

„Við höfum fengið ótrúlega jákvæð viðbrögð við þessu. Við höfum verið að fylgjast með og þetta hafa verið yfirgnæfandi jákvæð viðbrögð,“ segir Ingibjörg.

Ýmsar upplýsingar um kynferðislega áreitni má sjá á velvirk.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert