Eftir á að hyggja hefði verið betra að auglýsa

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Safnafólk var óánægt með að staðan hefði ekki verið auglýst. Ég fór yfir það með þeim af hverju við auglýstum hana ekki og ég sagði líka á fundinum að eftir á að hyggja hefði kannski verið betra að auglýsa til þess að það myndi ríkja traust á milli mín og safnafólks.“

Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra í samtali við mbl.is, um safnaþing sem fór fram á Austfjörðum í síðustu viku.

Lilja kveðst þó ekki hafa sagt á þinginu að hún harmaði skipan Hörpu Þórsdóttur í stöðu þjóðminjavarðar eins og kemur fram í frétt Fréttablaðsins.

„Harpa Þórsdóttir er mjög öflug og hefur verið mjög farsæll stjórnandi þannig að skipunin stendur óhögguð en það sem ég harmaði, eftir á að hyggja, er að það hefði verið skynsamlegra að auglýsa miðað við viðbrögðin,“ segir Lilja.

„Ég hélt að þar sem ég væri að flytja safnstjóra úr einu höfuðsafni í annað að það væri sátt um þessa skipun,“ bætir hún við.

Ræddu um skipunartíma

Lilja segist hafa fundað með safnafólki aftur í gær og fundurinn hafi verið frábær. Þar hafi til að mynda verið farið yfir hvort að ekki ætti að samræma skipunartíma safnstjóra höfuðsafnanna. Hún bendir á að til að mynda sé skipunartími 10 ár hjá Listasafni Íslands en enginn skipunartími sé hjá Þjóðminjasafninu.

„Þannig að við erum núna að fara yfir ýmsa þætti til þess að sjá hvernig við eflum þetta og horfum til framtíðar,“ segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert