Erum beint „í skotmarki fellibylsins“

Rúnar Ásgeirsson Sigurðsson og Hafdís Garðarsdóttir Sigurðsson á Lido Beach …
Rúnar Ásgeirsson Sigurðsson og Hafdís Garðarsdóttir Sigurðsson á Lido Beach þegar enginn fellibylur var yfirvofandi. Aðsend/mbl.is

„Við höfum búið hérna í 43 ár í Sarasota og við höfum oft þurft að undirbúa okkur vegna fellibylja, svo við erum öllu vön. Sá sem fór eiginlega verst með okkur hérna var fellibylurinn Irma fyrir fimm árum, en þá var það í fyrsta skipti sem við settum fyrir alla glugga og byrgðum húsið alveg. Þá urðum við rafmagnslaus hátt í viku, “ segir Hafdís Garðarsdóttir Sigurðsson hjúkrunarfræðingur í Sarasota.

Hafdís starfar á spítala í Sarasota en rekur einnig með eiginmanni sínum, Rúnari Ásgeirssyni Sigurðsson, sitt eigið fyrirtæki þar sem búin eru til mót til að búa til plastvörur, eins og sprautur og fleira í þeim dúr.

Byrgja glugga og ná í bensín

„Fellibylurinn Ian hefur verið að færast sunnan við Tampa, þannig að við erum eiginlega alveg í skotmarkinu. En auðvitað getur þetta alltaf breyst,“ segir hún.


Hún segir að þau hjónin séu búin að setja bensín á alla bíla og auka tanka, kaupa vistir og voru í gær að fara að ná í fleka til að setja fyrir gluggana. „Við erum líka búin að saga niður trégreinar sem gætu valdið einhverju tjóni.“

Í St. Petersburg Flórída er verið að byrgja glugga til …
Í St. Petersburg Flórída er verið að byrgja glugga til að verjast fellibylnum Ian sem stefnir nú á Flórída, en búist er við að hann nái landi sunnan við Tampa á miðvikudagskvöld. AFP/Joe Raedle


Eins og gera má ráð fyrir eru gífurlegar biðraðir við bensínstöðvar og verslanir. „Já það var allt bensín búið á þremur bensínstöðvum á laugardaginn, þegar við fórum af stað, svo þú getur bara ímyndað þér hvernig það er núna.“

Passa upp á róbótana

Hjónin hafa einnig þurft að huga að fyrirtækinu sínu, en stór þáttur framleiðslulínu fyrirtækisins er unnin með róbótum.

„Þeir voru að verja allar vélarnar, tölvur og fleira og pakka í plast í gær og þeir tóku rafmagnið af allri byggingunni, svo ekki yrði tjón ef rafmagnið slægi út.“

Maður veður áfram á götu í Batabano á Kúbu í …
Maður veður áfram á götu í Batabano á Kúbu í dag eftir að fellibylurinn Ian fór yfir eyjuna snemma í morgun. AFP/Yamil Lage

„Ég var á fellibyljavakt á spítalanum þegar fellibylurinn Charlie gekk yfir árið 2004 og þá hringdi Rúnar maðurinn minn í mig og með þær fréttir að helmingur af þakinu á húsinu okkar hafi fokið af,“ segir Hafdís. „Það var reyndar hvirfilbylur sem kom í tengslum við fellibylinn sem olli því að þakið fauk,“ segir Hafdís. „Þá fuku þök og hlöður hér í götunni og fleira.“

Núna er einmitt líka sagt að hætta sé á hvirfilbyljum í kringum fellibylinn Ian sem er á leiðinni. „Já, og það þykir mér eiginlega skelfilegra af því að maður getur einhvern veginn undirbúið sig undir fellibyljina og veit hvað er að gerast, en hvirfilbylirnir eru miklu óútreiknanlegri.“

Verða saman í veðurofsanum

Hjónin eiga þrjú uppkomin börn og einn sonur þeirra býr á Íslandi og annar í Louisiana, en yngsti sonurinn býr í gestahúsi sem þau eiga í Sarasota með konu sinni og börnum og þau ætla að vera með þeim í húsinu meðan fellibylurinn gengur yfir. „Þannig að við verðum hérna saman og það er ekkert annað í stöðunni en að reyna að taka þessu með stóískri ró.“

Meira og minna öllum flugum hefur verið aflýst á alþjóðaflugvellinum …
Meira og minna öllum flugum hefur verið aflýst á alþjóðaflugvellinum í Tampa, en vellinum verður lokað kl. 5 í dag að staðartíma. AFP/Bryan R. Smith
mbl.is