Fallist á áfrýjunarbeiðni Hörpu og Situsar

Íslenskir aðalverktakar kröfðust viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta úr …
Íslenskir aðalverktakar kröfðust viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta úr hendi Hörpu og Situs ehf.. mbl.is/Árni Sæberg

Fallist hefur verið á áfrýjunarbeiðni tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu annars vegar og Situsar ehf. hins vegar, vegna niðurstöðu Landsréttar í máli Íslenskra aðalverktaka gegn Hörpu.  

Íslenskir aðalverktakar kröfðust viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta úr hendi Hörpu og Situsar ehf. 

Réttur ÍA ekki virtur við gerð bílakjallara

Var krafan reist á þeim grundvelli að ekki hefði verið gætt að því, við framsal á tilteknum byggingarreitum á lóðinni Austurbakka 2 í Reykjavík, að kaupendur skuldbyndu sig til að virða rétt Íslenskra aðalverktaka til verktöku samkvæmt rammasamningi frá marsmánuði 2006. 

Hefði það leitt til þess að réttur Íslenskra aðalverktaka hefði verið virtur að vettugi þegar bílakjallari var byggður undir byggingarreitunum. 

Héraðsdómur sýknaði Hörpu og Situs ehf. af kröfum verktakanna, en með dómi Landsréttar var aftur á móti fallist á kröfuna. Var meðal annars vísað til þess að Situs ehf. hefði viðurkennt að hafa tekist á herðar skuldbindingu gagnvart Íslenskum aðalverktökum um að virða rétt þeirra til verktökunnar. 

Fordæmisgildi um skil milli eldri og yngri laga

Landsréttur taldi kröfuna hafa stofnast árið 2006 þegar umræddur rammasamningur komst á. Því hefðu fyrningarlög frá árinu 1905 gilt um kröfuréttindin. Samkvæmt þeim væri krafan ekki fyrnd. 

Árið 2007 tóku gildi ný lög um fyrningu kröfuréttinda. Harpa og Situs ehf. byggja á því að lagaskil gagnvart eldri lögum hafi verulegt gildi fyrir úrlausn málsins. Þá er jafnframt bent á að meint tjón verktakanna nemi hið minnsta 11 prósentum af byggingarkostnaði bílakjallarans og málið varði því sérstaklega mikla hagsmuni. 

Hæstiréttur telur dóm í málinu kunna að hafa fordæmisgildi um fyrningu skaðabótakrafna innan samninga og um lagaskil yngri og eldri laga um fyrningu kröfuréttinda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert