Framkoma forseta hafi jaðrað við einelti

Sigrún Valbergsdóttir, varaforseti Ferðafélagsins.
Sigrún Valbergsdóttir, varaforseti Ferðafélagsins. mbl.is/RAX

Anna Dóra Sæþórsdóttir, fráfarandi forseti Ferðafélags Íslands, vildi losna við framkvæmdastjóra félagsins, að sögn Sigrúnar Valbergsdóttur varaforseta og stjórnarmeðlims félagsins. 

Telur hún það vera rót samskiptavandans milli stjórnar og forseta, og því sé öllu snúið á hvolf í uppsagnarbréfi Önnu Dóru. Þar segir Anna Dóra að hún geti ekki starfað í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi gangi þvert á hennar eigin. 

„Hennar stjórnarhættir samsvöruðu ekki góðum samskiptaháttum, það er það sem varð til þess að þessi gjá myndast milli hennar og stjórnar. Hún tók ákvörðun um hluti án þess að bera þá undir stjórn og svo má segja að framkoma hennar gagnvart framkvæmdastjóra hafi jaðrað við einelti,“ segir Sigrún í samtali við mbl.is. 

Þá hafi Anna Dóra, neitað að mæta á stjórnarfund félagsins í júní, nema framkvæmdastjóra yrði sagt upp og Tómasi Guðbjartssyni stjórnarmanni vikið úr stjórn. 

Framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands er Páll Guðmundsson.

Kom til tals að leggja fram vantrausttillögu

Sigrún segir að stjórn og forseti hafi ekki verið á sama máli um ágæti framkvæmdastjórans, enda hafi rekstur félagsins gengið vel.

Þá játar hún að það hafi komið til tals að leggja fram vantrausttillögu á hendur forseta, af hálfu stjórnar. 

Í bréfi sínu segir Anna Dóra frá því að fljót­lega eft­ir kosn­ingu hafi henni farið að ber­ast upp­lýs­ing­ar um ýmis mál sem ekki hafði verið brugðist við af hendi fé­lags­ins. Al­var­leg­ustu mál­in hafi snert ein­stak­linga sem höfðu gerst brot­leg­ir við siðaregl­ur fé­lags­ins eða verið ásakaðir um áreitni eða gróft kyn­ferðis­legt of­beldi.

Stjórn félagsins fullyrðir að til staðar hafi verið faglegt ferli og viðmið um það hvernig tekið skyldi á málum sem upp koma í samskiptum innan félagsins, þar með talin mál sem varða kynferðislega áreitni. 

Innt eftir nánari skýringu á því hvernig hinu faglega ferli sé háttað, segir Sigrún að um sé að ræða verklag sem útlistað sé á tveimur blaðsíðum. Þar séu viðbrögð misjöfn eftir því hvers eðlis málin séu og hverjir eigi í hlut, það er að segja hvort um sé að ræða tvo farþega, farþega og fararstjóra, eða farþega og starfsmann þriðja aðila.

„Það er ákveðið alveg skýrt hverjir eiga að boða þolendur á fund og hverjir eigi að boða gerendur, hverjum sé falið að fjalla um málið og svo hvar rannsóknin fari fram.“

Sigrún segir að á síðustu fimm árum hafi komið upp sex tilfelli af þessu tagi, en þau hafi öll verið til lykta leidd. Því sé ekkert hæft í ásökunum Önnu Dóru um að félagið hafi ítrekað stungið málum undir stól. 

Anna Dóra Sæþórsdóttir.
Anna Dóra Sæþórsdóttir.

„Stjórnin vann þetta saman“

Þegar Anna Dóra tók við sem forseti leiddi hún vinnu við að endurskoða orðalag og það ferli sem grípa skal til þegar ofbeldismál eða samskiptaörðugleikar koma upp innan félagsins. 

„Því var lokið síðasta haust og svo unnið samkvæmt því. Þetta var fín vinna og gott að endurskoða svona verkferla. Stjórnin vann þetta saman. Við lögðum mikla vinnu í þetta og endurorðuðum margt til þes að hafa þetta í samræmi við breytingarnar sem orðið hafa í þjóðfélaginu, það er því sérstakt að þetta sé sett fram sem aðalorsök afsagnar forseta.“

Sigrún telur að tilefni umræddrar endurskoðunar hafi verið þriðja bylgja vitundarvakningarinnar Metoo, en ekkert einstakt mál. 

Mál einstakra manna fari ekki fyrir stjórn

„Æðstu stjórn­end­ur fé­lags­ins höfðu haft upp­lýs­ing­ar um þessi mál í lengri tíma, án þess að taka á þeim. Þvert á móti fengu þeir, sem þess­um sök­um voru born­ir, að starfa áfram sem far­ar­stjór­ar á veg­um fé­lags­ins. Eitt þess­ara mála varðaði stjórn­ar­mann í fé­lag­inu,“ skrifaði Anna Dóra í bréfi sínu.

„Mál einstakra manna fara ekki fyrir stjórn. Þetta eru viðkvæm trúnaðarmál og í stjórn eru níu einstaklingar, það myndi ekki ganga að allir væru upplýstir. Ég fæ þessi mál ekkert inn á borð til mín,“ segir Sigrún.

Úr ferð á vegum Ferðafélags Íslands.
Úr ferð á vegum Ferðafélags Íslands. Eyþór Árnason

Spurningar Önnu Dóru íþyngjandi

Í störfum sínum sem forseti Ferðafélagsins kveðst Anna Dóra ekki hafa fengið upplýsingar um rekstur félagsins og að svo hafi hún verið beðin að vera ekki í samskiptum við starfsmenn félagsins. 

Sigrún segir það af og frá að Anna Dóra hafi ekki fengið upplýsingar. „Hún sendi framkvæmdastjóra langa lista með spurningum og fékk svör við þeim, þetta er úr lausu lofti gripið.“

Þó bætir Sigrún við að framkvæmdastjóri hafi haft orð á því að spurningaflóð forseta hafi verið íþyngjandi, enda væri skrifstofan fáliðuð og mörg verkefni sem þyrfti að sinna. 

Þá bendir hún á að það sé erfitt fyrir framkvæmdastjóra að finna fyrir svo miklu vantrausti af hálfu forseta. 

„Það var haldinn aðalfundur í mars þar sem forsetinn lýsti því hvað allt gengi vel. Rekstrarstaða er sú besta sem verið hefur.“

Nýlegt mál stjórnarmanns til lykta leitt

Anna Dóra segir frá því að nýlega hafi henni borist upp­lýs­ing­ar um mál sem snerti stjórn­ar­mann í fé­lag­inu og sneri að áreitni og ósæmi­legri hegðun í skipu­lagðri ferð á veg­um fé­lags­ins. Þegar hún óskaði eftir upplýsingum hafi viðbrögðin verið að hafa uppi óbein­ar hót­an­ir gagn­vart fara­rstjór­an­um og til­kynna vin­konu þeirr­ar sem varð fyr­ir áreitn­inni að það myndi hafa af­leiðing­ar ef málið yrði rætt frek­ar.

Sigrún staðfestir að mál hafi komið upp í tengslum við stjórnarmann 2021. Hún segir það mál hafa verið leitt til lykta með samkomulagi milli aðila og að umræddur stjórnarmaður sé enn í stjórn. Málið hafi þó ekki komið inn á borð stjórnar. 

Þá kveðst hún ekkert vita um það hvort einhver hafi haft samband við vinkonu þeirrar sem varð fyrir áreitninni, líkt og fram kemur í bréfi Önnu Dóru. 

Einhverjir hafa sagt sig úr Ferðafélagi Íslands í kjölfar afsagnar Önnu Dóru, en Sigrún hefur ekki upplýsingar um það hve margir það eru. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert