Hæstiréttur tekur fyrir mál Secret Solstice

Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice 2018.
Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstiréttur hefur samþykkt málskotsbeiðni umboðsskrifstofu hljómsveitarinnar Slayer, vegna dóms Landsréttar. Í dóminum sýknaði Landsréttur skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice af kröfum til greiðslu skuldar vegna tónlistarflutnings hljómsveitarinnar á hátíðinni sumarið 2018. 

Málskotsbeiðnin byggðist á því að úrslit málsins hefðu verulegt almennt gildi um skýringu og mat á skuldbindingargildi yfirlýsinga í fjölmiðlum. 

Í ákvörðun Hæstaréttar kemur fram að dómur í málinu kunni að hafa fordæmisgildi um stofnun kröfu og greiðsluskyldu í tilviki fleiri skuldara. Því sé rétt að samþykkja málskotsbeiðnina. 

Ábyrgðaryfirlýsingar í fjölmiðlum

Umboðsskrifstofan, K2 Agency Limited, hafði áður höfðað mál til heimtu kröfunnar á hendur félaginu Solstice Productions ehf. sem hélt tónlistarhátíðina 2018 og fyrirsvarsmanni þess félags, Friðriki Ólafssyni. 

Bú félagsins var síðan tekið til gjaldþrotaskipta og lauk skiptum á því án þess að krafan fengist greidd. Friðriki var gert að greiða kröfuna á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar.

Höfðaði umboðsskrifstofan mál á hendur Live Events ehf. , Lifandi viðburðum ehf. og Guðmundi Hreiðarssyni Vilborg. Var á því byggt að verðmætum hefði, með saknæmum og ólögmætum hætti, verið ráðstafað frá Solstice Productions ehf. áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta.

Til vara krafðist umboðsskrifstofan þess að Live events ehf. yrði greiðsluskylt á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar Vík­ings Heiðars Arn­órs­son­ar, framkvæmdastjóra félagsins í fjölmiðlum.  

Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice 2018.
Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Landsréttur sneri niðurstöðu héraðsdóms

Í dómi héraðsdóms var fallist á kröfur umboðsskrifstofunnar, en í Landsrétti var niðurstöðunni snúið við. Þar var ekki fallist á að framkvæmdastjóri Live events ehf. hefði gefið skuldbindandi ábyrgðaryfirlýsingu um að félagið myndi greiða fjárkröfuna og var félagið því sýknað. 

Þá vísaði Landsréttur einnig til þess að fyrir lægi endanlegur dómur þar sem Friðriki, fyrirsvarsmanni Solstice Productions ehf., hefði verið gert að greiða fjárkröfuna sem málið varðaði og leyfisbeiðandi og ekki væri fullreynt hvort krafa hans fengist greidd úr hendi hans. Því væri ótímabært að krefja Live Events ehf., Lifandi Viðburði ehf. og Guðmund Hreiðarsson Vilborg um efndir hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert