Segir af sér sem forseti Ferðafélags Íslands

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, var …
Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, var formaður dómnefndar Þekkingarverðlaunanna.

Anna Dóra Sæþórsdóttir hefur sagt af sér sem forseti Ferðafélags Íslands og sömuleiðis sagt sig úr félaginu. Hún greinir frá þessu í færslu á facebook-síðu sinni.

„Það er með miklum trega sem ég geri það en eins og kemur fram í bréfinu þá vil ég ekki starfa í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi, sem ganga þvert á mín eigin gildi, ráða ríkjum,“ skrifar Anna Dóra.

Í bréfi sem Anna Dóra sendir til Ferðafélags Íslands segir hún frá því að fljótlega eftir kosningu fóru henni að berast upplýsingar um ýmis mál sem ekki hafði verið brugðist við af hendi félagsins. Alvarlegustu málin hafi snert einstaklinga sem höfðu gerst brotlegir á siðareglum félagsins eða verið ásakaðir um áreitni eða gróft kynferðislegt ofbeldi.

Fengu að starfa áfram sem fararstjórar

„Æðstu stjórnendur félagsins höfðu haft upplýsingar um þessi mál í lengri tíma, án þess að taka á þeim. Þvert á móti fengu þeir sem þessum sökum voru bornir að starfa áfram sem fararstjórar á vegum félagsins. Eitt þessara mála varðaði stjórnarmann í félaginu.“

Hún segist hafa beitt sér fyrir því að tekið yrði á þessum málum af festu og í kjölfarið hafi viðkomandi stjórnarmaður sagt sig úr stjórn. Síðan hafi komið upp mikill ágreiningur í stjórn félagsins um meðhöndlun málanna. Ákveðnir stjórnarmenn, þar á meðal góðvinur fyrrverandi stjórnarmannsins, vildu að sögn Önnu að hann fengi að starfa aftur hjá félaginu.

Þá segir hún frá því að nýlega hafi henni borist upplýsingar um mál sem snerti stjórnarmann í félaginu og sneri að áreitni og ósæmilegri hegðun í skipulagðri ferð á vegum félagsins. Þegar Anna óskaði eftir upplýsingum voru viðbrögðin að hafa uppi óbeinar hótanir gagnvart farastjóranum og tilkynna vinkonu þeirrar sem varð fyrir áreitninni að það myndi hafa afleiðingar ef málið yrði rætt frekar.

Henni hafi verið sýndur dónaskapur og óvild

Anna Dóra segir fleiri mál hafa komið upp sem valdið hafa ágreiningi. Megi þar nefna bæði almennan rekstur félagsins og stjórnarhætti.

„Niðurstaða mín er að innan stjórnar og meðal stjórnenda sé fólk sem ber ekki hagsmuni félagsins og félagsmanna fyrir brjósti. Áherslan hjá þessu fólki virðist vera að viðhalda ákveðnu valdajafnvægi þar sem embættum og verkefnum er úthlutað til stjórnarfólks og vina og ekki er tekið á málum sem snerta þá sem tengjast þessum einstaklingum,“ skrifar Anna.

Þá skrifar hún að fyrrgreind málefni hafi orðið þess valdandi að ákveðið stjórnarfólk hafi sýnt henni óvild og dónaskap og reynt að útiloka hana frá starfi félagins. Í júní hafi hún fengið bréf frá meirihluta stjórnar þar sem henni var bannað að vera í samskiptum við framkvæmdastjóra, starfsfólk skrifstofu félagsins og annað stjórnarfólk.

Færslu Önnu má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert