Skoðun á ummælum Sigurðar Inga skorti forsendur

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Auðvitað var óheppilegt að þetta skyldi dragast en við vorum á ýmsum stigum máls að afla okkur upplýsinga og fá álit á ákveðnum þáttum í málinu,“ segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, um ákvörðun forsætisnefndar um að vísa frá máli sem sneri að ummælum sem Sigurður Ingi Jóhannsson lét falla um Vigdísi Häsler, fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna, í búnaðarþingsboði í mars.

„Við þurftum í upphafi að velta fyrir okkur mörkunum milli siðareglna ráðherra og siðareglna þingmanna, enda er þetta í fyrsta skiptið sem mál sem varðar ráðherra hefur komið inn á okkar borð. Síðan þurftum við að átta okkur á fordæmum í þessu.

Niðurstaðan var á þessa leið og við sem stóðum að þessari ákvörðun töldum að málið væri þess eðlis þegar það væri metið heildstætt að það væru ekki forsendur til að halda áfram með það á grundvelli siðareglna þingsins,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Birgir segir að skoðanir nefndarmanna á málinu hafi ekki verið samhljóða að öllu leyti. „Engu að síður komumst við að þeirri niðurstöðu en það var auðvitað ekki einhugur um þetta í nefndinni“

Ekki lagt efnislegt mat á málið

„Ef framhald hefði orðið á málinu á vettvangi þingsins, þá hefði það annaðhvort byggt á vangaveltum úr fjölmiðlum eða þá einhverskonar frumkvæðisathugun forsætisnefndar sem ekki væri á hennar verksviði.

Við horfðum einnig til þess að einu upplýsingarnar sem hafa komið um málið hafa verið blaðafregnir sem hafa ekki verið staðfestar að öllu leyti hvað varðar einstök ummæli og aðstæður að öðru leyti þannig að við töldum að það væru ekki forsendur fyrir okkur til þess að halda málinu áfram.

Það skiptir líka máli við þetta heildarmat að sá sem kvörtunin beindist að [Sigurður Ingi Jóhannsson] hafði greinilega talið tilefni til að biðjast afsökunar á þessum ummælum, og hafði gert það.“

Ákvörðunin hafi því byggst á heildarmati á aðstæðum og tekur Birgir það fram að nefndin hafi ekki lagt efnislegt mat á málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina